Lágu dauðar eins og hráviði á gólfinu

Mynd úr safni mbl.is
Mynd úr safni mbl.is mbl.is/Styrmir Kári

Um miðjan október á síðasta ári var Karl Eiríksson, bóndi í Miðdalskoti í Bláskógabyggð, að hræra uppi í haughúsi undir fjósinu hjá sér. Hann hóf að keyra mykju á tún en þegar hann leit inn um glugga á fjósinu eftir tvær eða þrjár ferðir lágu dauðar kýr eins og hráviði á gólfinu.

Þær höfðu drepist vegna brennisteinsvetniseitrunar en þessi eitraða gastegund, sem líka er kölluð vetnissúlfíð, hafði losnað úr mykjunni þegar byrjað var að hræra, stigið upp og drepið kýrnar, að því er fram kemur í Bændablaðinu sem kom út í gær.

Fjósið í Miðdalskoti er lausagöngufjós, án rafmagnsvifta. Karl notaði, líkt og venjulega, brunndælu sem bæði getur dælt upp í haugtank og hrært í haughúsinu. „Ég opnaði allar dyr og glugga. Það var hins vegar blankalogn þennan dag. Haughúsið var nánast alveg fullt hjá mér og því ekki mikið pláss fyrir gasið neins staðar annars staðar en uppi í fjósinu sjálfu. Ég var grandalaus fyrir þessu vegna þess að ég var búinn að láta leka töluvert mikið vatn í haughúsið og ég hélt þess vegna að það væri minni hætta á að þessari gasmyndun. Svo var mér reyndar sagt eftir á að það væri alls ekkert minna hætta þrátt fyrir það. Svo byrja ég bara að hræra og gáði ekkert að mér. Það hefur sjálfsagt liðið hátt í klukkutími, og ég búinn að keyra tvo eða þrjá tanka úr húsinu, þar til ég kíki inn um gluggann. Þá sá ég hreinlega hrúgu af dauðum kúm á gólfinu,“ segir Karl í viðtalinu við Bændablaðið.

Kallað var á dýralækni, bæði til að sinna skepnum sem orðið höfðu fyrir eitrun en einnig til að skrásetja tjónið. „Það voru þó nokkuð margar kýr sem voru ansi valtar þarna. Ég neyddist til að aflífa tvær um kvöldið og eina daginn eftir. Ein þeirra var sérstaklega illa farin, það var eins og hún hefði orðið fyrir miklu tjóni á heila. Hún labbaði bara á veggi og ekkert annað við hana að gera en að fella hana,“ segir ennfremur í viðtalinu við Karl í Bændablaðinu en það er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is