Sex ára fangelsi fyrir smygl á e-töflum

E-töflur
E-töflur mbl.is/Kristinn

Einar Örn Adolfsson og Finnur Snær Guðjónsson voru í dag dæmdir af Héraðsdómi Reykjaness í sex ára fangelsi fyrir að smygla hingað til lands 30.225 e-töflum frá Danmörku.

Tollverðir fundu fíkniefnin í farangri Einars Arnar þegar hann kom til landsins með flugi frá Kaupmannahöfnn þann 23. ágúst árið 2011. Þá var hann ekki orðin átján ára gamall. Hann fór til Gautaborgar, svo til Kaupmannahafnar og loks Amsterdam til að taka á móti efnunum. 

Finnur Snær, sem var tvítugur á þessum tíma, fékk Einar Örn til verksins en í dómnum segir að hann hafi veitt honum leiðbeiningar um ferðatilhögun, afhent honum síma, símkort og greiðslukortið sitt til að greiða fyrir ferðakostnað og uppihald. Hann millifærði 364 þúsund krónur inn á reikning Einars Arnar í sama skyni.

Einar Örn játaði fyrir lögreglu og dóminum að hafa farið í umrædda ferð en í þeim tilgangi að koma með til Íslands eitt kíló af kókaíni. Honum hafi ekki orðið ljóst fyrr en hann tók við töskunni á hótelherberginu að um meira magn væri að ræða vegna þyngdar töskunnar. Þá hafi hann hins vegar talið vera of seint að snúa við.

Finnur neitaði sök í málinu. Í dómnum segir að brotavilji hans hafi verið einbeittur og hann hafi reynt að hylja slóð sína. Þá hafi hann ekki heldur verið samvinnufús við rannsókn málsins, sem verður að meta honum til refsiþyngingar.

„Þá telur dómurinn sannað að ákærði Finnur hafi haft vitneskju um að meðákærði kæmi með e-töflur til alndsins með vísan til framburðar vitna hjá lögreglu sem dómurinn telur áreiðanlega en framburður þeirra fyrir dómi var á reiki og báru vitnin við löngum tíma sem frá var liðinn,“ segir í dóminum.

Var svokallað burðardýr

Með hliðsjón af magni og styrkleika þeirra fíkniefna sem hann kom með til landsins og með hliðsjón af því að hann hafi neitað að gefa upp samverkamenn, sem metið er ákærða til refsiþyngingar, og fleiri þátta var refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex ár.

Dómurinn telur einnig sannað að Einar Örn hafi verið svokallað burðardýr. „Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til þess magns sem ákærði flutti til landsins og þess að honum mátti vera ljóst áður en hann fór með töskuna frá Amsterdam að það væri miklu meira af fíkniefnum í henni en eitt kíló af kókaíni en stakan vó 20,67 kíló tóm.

Mátti ákærða því vera fulljóst að hann var með miklu meira magn en eitt kíló af fíkniefnum í töskunni. Þrátt fyrir það fór ákærði með töskunar til Íslands. Ber ákærði Einar ábyrgð á því,“ segir í dómnum.

Á Way Out West tónleikum með nokkrum vinum

Einar Örn var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 24. ágúst 2011 og sætti hann gæsluvarðhaldi til 16. nóvember 2011. Einar kvaðst hafa flogið til Gautaborgar þann 11. ágúst 2011 á Way Out West tónleika ásamt nokkrum vinum sínum. Vinir hans hafi síðan farið heim 15. ágúst en hann hafi ekki getað útvegað sér farmiða og því orðið eftir í Gautaborg. Hann hafi síðan fengið símtal frá Finni, sem hafi boðið honum að taka ferðatösku með einu kílói af kókaíni með sér til Íslands, en á móti átti að fella allar skuldir Einars niður.

Finnur hafi lánað sér greiðslukort til að kaupa farmiðann út og til að nota í ferðinni. Einar hafi síðan farið með lest til Kaupmannahafnar og gist þar á farfuglaheimili og daginn eftir hafi hann flogið til Amsterdam þar sem hann hafi innritað sig á Wyndham Apollo hótel.

Íslenskur maður hafi komið til sín á hótelið þann 16. ágúst og látið sig hafa tóma ferðatösku og sagt sér að annar maður myndi sækja töskuna, koma fíkniefnunum fyrir í henni og skila henni svo aftur til ákærða. Seinni maðurinn hafi komið sama kvöld til sín en hann var íslenskur. Sá hafi skilað sér töskunni um miðnætti kvöldið eftir, eða 17. ágúst.

Þá hafi Einar tekið lest til Kaupmannahafnar og aftur þaðan til Gautaborgar. Þar hafi hann jafnframt gist eina nótt og flogið síðan daginn eftir til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands, eða þann 23. ágúst 2011 þar sem hann var handtekinn.

Finnur var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald .ann 7. september 2011 og sætti því til 22. nóvember 2011 er hann var látinn laus.

Upphaflega var ákæra gefin út á hendur Einari Erni og Finni Snæ auk einum manni til viðbótar, en sá sætti farbanni í Ástralíu. Var það mál fellt niður þann 20. janúar síðastliðinn og í framhaldi var gefin út ný ákæra á hendur Einari Erni og Finni Snæ í þessu máli.

Annað mál var höfðað gegn hinum manninum, en því hefur nú verið frestað tímabundið þar sem ekki næst til hans þrátt fyrir löglega birt fyrirkall.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert