Nauðlentu kennsluvél við golfvöll

Vélin steyptist fram fyrir sig og fór á hvolf.
Vélin steyptist fram fyrir sig og fór á hvolf. Ljósmynd/Víkurfréttir

Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út nú fyrir skömmu þegar fregnir bárust af því að flugvél hefði farið niður við golfvöllinn á Vatnsleysuströnd.

Fyrstu fregnir herma að vélin hafi misst mótor og flugmaðurinn náð að lenda henni rétt utan við golfvöllinn.

Þar var fyrir einhver hindrun svo að vélin steyptist fram yfir sig og fór á hvolf. Sjúkraflutningalið og slökkvilið var einnig boðað á staðinn og þyrla LHG sem var í nágrenninu.

Í ljós kom að tveir voru um borð en þeir slösuðust ekki alvarlega. Verið er að flytja þá með þyrlu á sjúkrahús til skoðunar. Aðstoð björgunarsveita var svo afturkölluð skömmu síðar.

Uppfært kl. 17:44

Víkurfréttir greina frá því að vélin sé frá flugskóla Keilis. Vélin er af gerðinni Diamond DA20 og er tveggja sæta. Í vélinni voru nemandi og kennari. 

Uppfært kl. 18:34

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hlutu flugmaðurinn og farþeginn ekki alvarleg meiðsli en voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. 

mbl.is