Á ég að kaupa fleiri tómata?

Í skýrslu sem OECD kynnti í vikunni kemur fram að á meðal OECD-ríkja geta um 10-15% nemenda greint flóknar fjármálaafurðir og leyst flókin fjárhagsleg dæmi. Á sama tíma geta um 15% nemenda ekki tekið einfaldar fjárhagslegar ákvarðanir og þekkja ekki hversdagsleg skjöl á borð við reikninga. 

Skýrslan byggir á niðurstöðum úr PISA-könnuninni, en valin voru út nokkur lönd þar sem fjármálalæsi nemenda var greint. Ísland var ekki á meðal þeirra landa. 

Ein auðveld spurning úr könnuninni var eftirfarandi:

Fyrir suma getur það verið léleg fjárhagsleg ákvörðun að kaupa heilann kassa af tómötum, á meðan það getur borgað sig fyrir aðra. Útskýrðu af hverju.

  • Hver tómatur í stykkjatali kostar 2,75 „zed“.
  • Tíu kílóa kassi af tómötum kostar 22 „zed“.

Til þess að fá rétt fyrir spurninguna þurftu nemendurnir að útskýra að vegna þess að það sé ekki víst að allir þurfi á tíu kílóum af tómötum að halda og að þeir geti myglað áður en þú nærð að nota þá alla. „Þetta er grundvallaratriði sem margir nemendur eru í vandræðum með að skilja,“ segir í skýrslu OECD. 

Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, segir rannsóknina mikilvæga fyrir Íslendinga. „Rannsóknin er ekki síst mikilvæg fyrir okkur Íslendinga, þó að við höfum ekki tekið þátt að þessu sinni, meðal annars í ljósi þess að fjármálalæsi er nú þegar komið inn á aðalnámskrá íslenska grunnskóla og framhaldsskóla. Með því að greina PISA rannsóknina gefst tækifæri að læra af því sem vel er gert í öðrum löndum,“ segir Breki. 

Af þeim ríkjum sem tóku þátt í könnuninni kom Sjanghæ best út, svo Kína. Þar á eftir fylgdi flæmski hluti Belgíu, Eistland, Ástralía og Nýja-Sjáland. 

Hér má sjá dæmi um spurningarnar á ensku.

Hér má sjá niðurstöður rannsóknarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert