Bannað að taka stól með á Timberlake

Það seldist upp á tónleika Justin Timerlake á 12 mínútum …
Það seldist upp á tónleika Justin Timerlake á 12 mínútum fyrr á þessu ári. Justin Timberlake

Nú styttist í tónleika stórstjörnunnar Justin Timberlake hér á landi, en þeir verða eins og flestir vita þann 24. ágúst í Kórnum, Kópavogi. Miði.is, sem annaðist miðasölu á viðburðinn, hefur nú sent út tilkynningu með ýmsum upplýsingum um tónleikana sem verða líklega með stærstu tónleikum Íslandssögunnar en þeir 16 þúsund miðar sem voru í boði seldust upp á mettíma. 

Eru tónleikagestir sérstaklega minntir á að sækja miðana sína tímanlega til þess að koma í veg fyrir langar biðraðir á tónleikadag. Hægt er að sækja miða í verslunum Brim, Laugavegi 71 og Kringlunni ásamt móttöku Midi.is að Skaftahlíð 24. 

Miði.is leggur jafnframt áherslu að ekki sé hægt að prenta tapaða miða út aftur. Hver útprentaður miði er eins og peningaseðill; ef hann týnist er það tapað fé. Því er óhætt að segja að miðaeigendur þurfi að passa vel upp á miðana sína eftir útprentun. 

Kórinn í Kópavogi stendur við Vallakór 12 í Kópavogi. Umferð um Kórhverfi verður takmörkuð frá klukkan 16 á tónleikadag og verða þær lokanir kynntar sérstaklega þegar nær dregur. 

Miði.is hvetur alla þá sem geta gengið eða hjólað á tónleikastað að gera það. Jafnframt er mælt með leigubílum, almenningssamgöngum og að deila einkabílum. 

Sérstök bílastæði fyrir hreyfihamlaða verða alveg við Kórinn og sérstakt pláss verður fyrir hjólastóla aftast í stúkunni. Einn fylgdarmaður fær aðgang í stúkuna með hverjum hreyfihömluðum einstaklingi.

Húsið opnar klukkan 18:00 á tónleikadag og tónleikarnir hefjast kl. 19:30. Áætlað er að þeim ljúki á ellefta tímanum. Ekkert aldurstakmark er á tónleikana en áfengi verður selt á afmörkuðum svæðum sem engum verður hleypt inn án skilríkja. Jafnframt verður hægt að kaupa veitingar á svæðinu. 

Í tilkynningunni eru tónleikagestir eru hvattir til að mæta í þægilegum klæðnaði enda „verður margt um manninn á tónleikunum og við slíkar aðstæður getur orðið heitt,“ eins og segir í tilkynningunni.

Leyfilegt verður að taka myndir á síma eða litlar myndavélar á tónleikunum en bannað að koma með atvinnumyndavélar og –myndavélabúnað.

Bannað verður að koma með drykkjarföng eða mat inn á svæðið og jafnframt verður óheimilt að koma með stóla og aðra stóra hluti á tónleikana.

Nú eru aðeins níu dagar í gleðina og því er kjörið að hita sig upp með ljúfum Timberlake tónum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert