Enn ósamið í Herjólfsdeilunni

Lög sem sett voru á verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi í …
Lög sem sett voru á verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi í byrjun apríl falla úr gildi þann 16. september nk. Eggert Jóhannesson

Enn er ósamið í Herjólfsdeilunni og hefur ríkissáttasemjari boðað við sáttafundar um miðjan næsta mánuð. Einn formlegur fundur hefur farið fram í sumar og þá hafa einnig verið óformlegar þreifingar milli deiluaðila. Lög sem sett voru á verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi í byrjun apríl falla úr gildi þann 16. september nk.

Fara fram á nokkra hækkun

Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í lok janúar á þessu ári. Þegar hvorki gengið hafði né rekið í lok febrúar voru verkfallsaðgerðir boðaðar frá og með 5. mars. Þegar þeim hafði verið beitt í þrjár vikur samþykkti Alþingi lög sem kveða á um frekari verkfallsaðgerðum á Herjólfi verði frestað til og með 15. september.

Í kröfum Sjómannafélags Íslands fólst 16% hækkun á grunnkaupi, hækkun á næturvinnuálagi frá 33% upp í 80% og þá vill félagið einnig að starfsmennirnir fái sjómannaafslátt til baka  sem afnuminn var um síðustu áramót.

Hafa lagt fram lausnir í málinu

Að sögn Ólafs William Hand, upplýsingafulltrúa Eimskips, hefur félagið lagt fram lausnir á málinu í sumar á óformlegum fundum. Lausnirnar komi, að mati félagsins, verulega til móts við kröfur starfsmanna Herjólfs en þeim var öllum hafnað af Sjómannafélagi  Íslands. Enn er því ósamið í kjaradeilunni.

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, hefur hingað til setið einn við samningaborðið fyrir hönd félagsins og hefur það verið gagnrýnt af Eimskip.„Það væri æskilegt að menn úr áhöfn Herjólfs sætu við samningaborðið, það myndi flýta ferlinu varðandi boðleiðir,“ segir Ólafur, aðspurður um gagnrýni félagsins.

Verkfallsaðgerðir hefjast á ný

Jónas segir í samtali við mbl.is að ekki líti út fyrir að samningar náist áður en lögin falla úr gildi. Formlegur fundur fór fram í húsnæði ríkissáttasemjara sl. fimmtudag og verður næst fundað þann 15. september, daginn áður en lögin falla úr gildi.

Takist ekki samningar fyrir þann tíma, hefjast verkfallsaðgerðir á ný þriðjudaginn 16. september. Þær fela í sér yfirvinnubann og þá verður ekki siglt á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.  „Það stefnir í átök,“ segir Jónas. 

Herjólfur siglir til Svíþjóðar í byrjun september þar sem hann fer í slipp. Ýmsar breytingar verða gerðar á skipinu sem bæta munu siglingagetu þess í Landeyjahöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka