Herjólfur lagður af stað frá Póllandi

Haldið af stað úr höfninni í Gdynia í morgun.
Haldið af stað úr höfninni í Gdynia í morgun. Ljósmynd/Gísli Valur

Ferjan Herjólfur er nú á leið frá Póllandi áleiðis til Íslands með mögulegri viðkomu í Færeyjum. Gert er ráð fyrir að Herjólfur komi til Vestmannaeyja næsta laugardag, en í framhaldinu tekur við stuttur tími þar sem gengið verður frá leyfum og skipið mátað við hafnir og fleira, áður en hann fer í reglulegan rekstur um næstu mánaðarmót.

Talsverðar deilur hafa staðið milli skipasmíðastöðvarinnar og Vegagerðarinnar vegna kostnaðar við smíði Herjólfs, en sú deila leystist í lok síðasta mánaðar. Vildi skipasmíðastöðin hærri greiðslur vegna aukinna verkefna sem þeir töldu hafa komið upp í ferlinu. Tafðist afhending um nokkra mánuði vegna þessa. Undirrituðu aðilar sáttagerð þar sem samþykkt var að greiða 1,5 milljóna evra viðbót, en falla frá tafabótum á móti.

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir í samtali við mbl.is að lagt hafi verið af stað frá Gdynia Í Póllandi, þar sem nýr Herjólfur var smíðaður, klukkan 10:40 að staðartíma, en það var klukkan 8:40 í morgun að íslenskum tíma.

Á leiðinni heim frá Póllandi.
Á leiðinni heim frá Póllandi. Kort/Marine traffic

Segir hann að samkvæmt áætlun sé horft til þess að Herjólfur stoppi til að taka olíu í Færeyjum, en svo sé stefnan sett beint á Vestmannaeyjar. Samtals muni siglingin líklega taka um sex daga, en áætlað er að vera með móttöku klukkan 14:00 laugardaginn 15. Júní í Eyjum.

Í kjölfarið tekur við vinna við lokafrágang og æfingar. Segir Guðbjartur að meðal annars þurfi að koma upp kassakerfum, merkja skipið, þjálfa starfsfólk og ganga frá öðru í tengslum við reksturinn. Þá þurfi einnig að fá formlegt haffærisvottorð hér á landi og leyfi til ferjusiglinga hjá innlendum stjórnvöldum.

„Við stefnum á að koma honum í rekstur á eins skömmum tíma og hægt er,“ segir Guðbjartur og bætir við að horft sé til þess að nýr Herjólfur verði kominn í almennan rekstur milli lands og Eyja um næstu mánaðarmót, að því gefnu að allt gangi upp.

Staðið í brúnni og stefnan sett heim.
Staðið í brúnni og stefnan sett heim. Ljósmynd/Gísli Valur

Segir Guðbjartur að nýja ferjan sé nokkuð öðruvísi en núverandi Herjólfur og hafi allir skipstjórar Herjólfs farið utan til að sigla heim. Noti þeir ferðina til æfinga, enda sé búnaður ferjunnar gjörólíkur núverandi búnaði. Skipstjóri í heimferðinni er Ívar Torfason, en með honum eru þeir Sigmar Logi Hinriksson og Gísli Valur Gíslason. Þá eru í vélinni Svanur Gunnsteinsson, Elís Jónsson og Heimir Pétursson.

Nýr Herjólf­ur rist­ir grynnra en sá gamli og því þarf ekki að dýpka jafn mikið fyr­ir nýtt skip. Mun það auðvelda og flýta fyr­ir dýpk­un og mun fækka dög­um sem ekki er unnt að sigla í Land­eyja­höfn.

Nýr Herjólfur er væntanlegur næsta laugardag til Vestmannaeyja.
Nýr Herjólfur er væntanlegur næsta laugardag til Vestmannaeyja. Ljósmynd/Gísli Valur
mbl.is