Hvað á nýja hraunið að heita?

Rauðglóandi hraun rennur úr eldstöðinni í Holuhrauni.
Rauðglóandi hraun rennur úr eldstöðinni í Holuhrauni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skortur á örnefnum hefur sjaldan verið jafn áberandi og nú þegar menn keppast við að finna nafn á nýja hraunið sem rennur um Holuhraun, eina örnefnið á mjög stóru svæði. Jarðfræðingurinn Skúli Víkingsson stingur upp á nafninu Flæðahraun.

„Það er varla hægt að kenna hraun við hraun,“ segir Skúli Víkingsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, en það verður að segjast að Holuhraunshraun lætur ekki vel í eyrum.

„Það eru einkar fá örnefni á þessum slóðum. Eina nafnið sem er þarna á mjög stóru svæði er Flæður. Það er talað um Flæður Jökulsár þegar keyrt er um viðkomandi sanda. Því velti ég því fyrir mér á fésbókinni hvort það ætti ekki að kalla hraunið Flæðahraun,“ segir hann. Aðspurður að því hví svo lítið sé af örnefnum á svæðinu svarar hann því einfaldlega að líklegast sé það sökum þess að á svæðinu hafi í gegnum tíðina verið lítil beit.

Holufylling eða Þorbjargarhraun

Skúli stingur einnig upp á nafninu Flæðaeldar en hann segir það stjórnast af því hvernig framhaldið á eldsumbrotunum verður. „Þetta eru gríðarlegir atburðir sem eru þarna að eiga sér stað. Þetta er miklu stærri atburður en Kröflueldarnir voru nokkurn tímann. Þetta eru miklu stærri skjálftar og meiri kvikuhreyfing. Það veit enginn hvað kann að gerast en ef hraunið nær ekki að breiðast almennilega út á Flæður Jökulsár, heldur takmarkast við Flæður, þá má kalla eldgosið Flæðaelda,“ segir hann.

„Það eru ekki farnar að sjást neinar myndir úr lofti ennþá svo það er lítið hægt að segja um það hversu stórt svæði nýja hraunið þekur,“ bætir hann við. Ýmsar tillögur hafa skotið upp kollinum og má þar nefna Gjótuhraun, Dyngjuhraun og Þorbjargarhraun í höfuðið á jarðvísindanemanum Þorbjörgu Ágústsdóttur sem vinnur að doktorsritgerð sinni á svæðinu.

„Það er auk þess búið að gantast mikið með nafnið Holufylling. Því var þó aðallega haldið á lofti í fyrra gosinu þar sem það var öllu minna. Hraunið úr því gosi rétt náði að renna ofan í gjótur á svæðinu,“ segir Skúli kíminn að lokum.

Eldgosið í Holuhrauni - ljósmyndari og blaðamaður mbl.is eru á …
Eldgosið í Holuhrauni - ljósmyndari og blaðamaður mbl.is eru á gosslóðum og tóku þessa mynd í morgun mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina