Ísland axli ábyrgð í loftslagsmálum

Loftslagsgangan í Reykjavík fór fram í miðborginni í dag. Gangan er haldin í borgum víða um heim og er markmið hennar að fá ráðamenn til þess að axla ábyrgð í loftslagsmálum. Er gangan haldin í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst á þriðjudaginn í New York.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, er gestgjafi þess fundar og er markmið hans að gefa ráðamönnum tækifæri til að ræða nauðsyn aðgerða, nú rúmu ári fyrir Loftslagsþingið sem haldið verður í París í lok næsta árs. Þar er stefnt að bindandi samkomulagi aðildarríkjanna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. 

Hópurinn sem gekk í dag, safnaðist saman á horni Frakkastígs, Kárastígs og Njálsgötu, rétt hjá söluturninum Drekanum en skipuleggjendur göngunnar nefna það svæði til gamans Drekasvæðið. Lá gangan að Skólavörðustíg og niður á Austurvöll. 

Meðal skipuleggjenda viðburðarins á Íslandi eru Náttúruverndarsamtök Íslands og samtökin Grugg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina