Saga greindist með vægar frumubreytingar

Saga vopnuð GoPro myndavélinni.
Saga vopnuð GoPro myndavélinni.

„Þetta átak kemur til af því að stúlkur milli tvítugs og þrítugs skila sér illa í leghálsskoðun og því miður var ég ein af þeim. Ég var búin að trassa það að mæta í svona fjögur ár,“ segir Saga Garðarsdóttir, leikkona. Á sunnudag birti mbl.is myndband sem sýnir upplifun Sögu af leghálsskoðun frá fyrstu hendi en það var tekið upp í tilefni af árveknisátaki Bleiku slaufunnar.

„Ég hefði áreiðanlega haldið áfram að skrópa ef ég hefði ekki verið beðin um að taka þátt í þessu átaki á vegum Leitarstöðvarinnar. Mér fannst ég líka vera fallin á mætingu og hélt kannski að ég yrði bara skömmuð. Það var þó fjarri lagi. Það er mjög mikil ánægja með alla sem skila sér á staðinn. Auðvitað,“ segir Saga.

Hún segist ekki hafa sett það fyrir sig að vera með Go-Pro myndavél á höfðinu í leghálsskoðuninni. „Því skrýtnari sem hlutirnir eru því meira langar mig að gera þá, ég væri kannski búin að fara oftar ef ég fengi alltaf að vera með Go-Pro-vél á hausnum eða að minnsta kosti partýhatt. Næst geri ég það. Ef ég sé með hattinn fer ég örugglega í stuð,“ segir hún eins og Dúddi.

Í myndbandinu má sjá ferlið sem konur fara í gegnum þegar þær mæta í leghálsstroku á Leitarstöðina en ekki er sýnt hvað gerist að henni lokinni. Konur fá aðeins bréf, tölvupóst eða símtal ef eitthvað athugavert kemur í ljós í skoðuninni. Saga fékk símtal, þar sem henni var tjáð að hún væri með vægar frumubreytingar í leghálsi.

Verðum að sýna sjálfum okkur þá virðingu að mæta

„Fyrst hugsaði ég: Týpískt! Ég vissi að þetta myndi gerast ef ég færi í tékk,“ segir Saga um hennar fyrstu viðbrögð við símtalinu. Hún segist þó fljótlega hafa orðið rosalega fegin að hafa farið í leitina. 

„Ég er með vægar breytingar á fyrsta stigi sem er algengt og þær ganga langoftast til baka. Ég er mjög heppin að þetta uppgötvast svona snemma. Þá verður fylgst betur með mér og ég kölluð oftar inn.“ segir Saga og er fljót að bæta við „En þetta hefði getað farið framhjá mér í einhver ár í viðbót og þess vegna getað endað illa.“

„Það er heimskulegt en stundum frestar maður því of lengi að fara til læknis því maður að óttast að eitthvað sé að. Það er hægt að trúa því að ekkert sé að ef enginn er búinn að greina mann,“ segir Saga um ástæður þess að hún hafi frestað leghálsskoðun eins lengi og raun bar vitni. 

„Svo hafði ég bara miklað fyrir mér tímann og vesenið sem þetta tekur, sem er síðan ekkert. Þetta tekur bara nokkrar mínútur þegar þú ert komin í sloppinn.“ heldur hún áfram og bætir við að fólkið sem starfi á Leitarstöðinni sé líka svo indælt og skemmtilegt að hún hefði ekkert á móti því að kíkja oftar til þeirra í kaffi.

„Mér finnst gott að vita til þess að það er svona gott fólk á Leitarstöðinni og að því skuli vera svona annt um okkur að hrinda af stað þessari herferð til að fá okkur trassana til sín. Mér finnst eins og það sé einhver að passa mig. Þau sjá um allt þetta erfiða og það eina sem við þurfum að gera er að mæta þegar okkur er boðið að koma. Og við verðum að sýna þeim en aðallega okkur sjálfum þá virðingu að þiggja boðið.“ 

Engin fyrirhöfn en mikill ávinningur

Saga segist hafa fengið góð viðbrögð við myndbandinu. Margir hafi haft samband við hana, bæði konur sem hafi aldrei farið í leghálsskoðun en ætli núna og aðrar sem fari reglulega og kunnu að meta myndbandið. Einna mest áhrif á Sögu höfðu þó skilaboð frá manni sem hafði misst konuna sína, langt um aldur fram, úr leghálskrabbameini og vildi þakka henni fyrir að vekja athygli á mikilvægi þess að konur færu í skoðun.

„Fyrirhöfnin er engin fyrir svo mikinn ávinning,“ segir Saga. „Við erum að tala um tvær mínútur - fyrir lífið.“

Áminningin nauðsynleg

„Við skiptum þessu yfirleitt í þrennt. Það eru vægar breytingar eins og Saga er með, meðal breytingar og alvarlegar breytingar,“ segir Kristján Oddson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins.

„Allar konur sem eru með vægar breytingar fara í þéttara eftirlit til þess að sjá að breytingarnar gangi til baka. Þær sem eru með meðal miklar breytingar eða alvarlegar breytingar fara í leghálsspeglun og síðan fer framhaldið eftir því sem kemur út úr því,“ útskýrir hann. Hann segir aldrei hægt að vita í hvaða átt breytingarnar muni þróast, hvort þær gangi til baka eða breytist í krabbamein. 

„Mjög margar konur fá frumubreytingar og það eina sem þær þurfa að gera er að koma í eftirlit þegar þær fá bréf frá okkur,“ segir hann.

Kristján segir Leitarstöðina hafa fengið mikil og jákvæð viðbrögð við átaki ársins. „Það er gríðarlega mikið hringt og mikið pantað á netinu. Konur taka oft við sér þegar eitthvað sérstakt kemur upp en svo dettur það niður aftur,“ segir Kristján. „Það þarf stöðugt að minna á.“

Frétt mbl.is: Í leghálsskoðun með GoPro

Saga Garðarsdóttir.
Saga Garðarsdóttir. Þórður
Skjáskot sem sýnir leghálsskoðun Sögu
Skjáskot sem sýnir leghálsskoðun Sögu
mbl.is