Lánið til Exista „mjög óvenjulegt“

Lánið sem stjórn SPRON veitti Exista og sérstakur saksóknari hefur ákært fyrir er í ákæru sagt mjög óvenjulegt. Það hafi verið eina lánið sem samþykkt var af stjórn sparisjóðsins á árunum 2007 og 2008. Ákærðu eru sögð hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu. Málið snýst um tveggja milljarða króna peningamarkaðslán sem veitt var Exista 30. september 2008.

Ákærð eru í málinu Guðmundur Örn Hauksson, fyrrverandi forstjóri SPRON, og stjórnarmennirnir Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist. Málið verður þingfest á mánudag.Í ákæru segir að lánið hafi verið veitt án trygginga fyrir endurgreiðslu þess og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins. Lánið var framlengt fjórum sinnum og var síðasti gjalddagi þess 16. mars 2009. Það var ekki greitt til baka og verður að teljast að fullu eða verulegu leyti glatað.

Í ákæru segir að full ástæða hafi verið fyrir stjórnarmenn að fara varlega við ákvörðun sína og fara eftir öllum reglum vegna slíkra lánveitinga, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem komin var upp á fjármálamörkuðum á þessum tíma. „Því fór hins vegar fjarri að ákærðu færu eftir þeim varúðarreglum sem þeim bar skylda til í störfum sínum.“

Þá segir að lánið hafi verið það eina sem stjórn SPRON samþykkti á árunum 2007 og 2008. „Var því mjög óvenjulegt að stjórn sparisjóðsins tæki slíka ákvörðun, enda lánið afar stórt miðað við fjárhag sparisjóðsins.“

Litið er svo á að brot fólksins sé stórfellt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert