Dauð friðuð gæs á vefsíðu ferðaþjónustufyrirtækis

Myndin sem birtist á vefsíðu Icelandic Hunting Adventures. Kanadagæsin er …
Myndin sem birtist á vefsíðu Icelandic Hunting Adventures. Kanadagæsin er í fremstu röð, yst til hægri. Óvíst er hvaðan myndin kemur.

Norðlenskt ferðaþjónustufyrirtæki sem býður meðal annars upp á gæsaveiðar var með mynd af friðaðri Kanadagæs innan um aðra bráð veiðimanna á vefsíðu sinni. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir myndina ekki úr ferð á vegum þess og að myndin eigi ekki heima á vefsíðunni. Búið er að fjarlægja hana.

Vakin var athygli á því að Kanadagæs væri ein þeirra dauðu gæsa sem birtist á mynd á vefsíðu fyrirtækisins Icelandic Hunting Adventures á Facebook-síðu Ungra umhverfissinna. Sú tegund er friðuð á Íslandi. Ólafur Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, staðfestir að um Kanadagæs sé að ræða.

Að sögn Jóns Inga Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Icelandic Hunting Adventures, kom það honum á óvart á myndina væri að finna á vefsíðu fyrirtækisins. Eftir að honum var bent á myndina hafi hann haft samband við vefstjóra fyrirtækisins sem hafi gefið þær skýringar að hann hafi fundið myndina á netinu fyrir mörgum árum þegar hann vantaði myndefni. Hann viti ekki hvaðan myndin sé komin upphaflega.

„Þessi mynd er allavega ekki komin frá okkur og á ekki heima á okkar heimasíðu. Það vantaði myndir á sínum tíma og það var eitthvað lítið til af myndum af gæsum. Þetta var nú ekki mjög heppileg mynd, ég verð að viðurkenna það. Hann [vefstjórinn] þekkir kannski ekki vel í sundur gæsir sjálfur,“ segir hann og fullyrðir að hópar á hans vegum hafi aldrei skotið Kanadagæs enda sjáist hún ekki fyrir norðan.

Myndin hefur nú verið fjarlægð af vef Icelandic Hunting Adventures.

Jón Ingi treystir sér ekki til að dæma um hvar myndin sé tekin en af landslaginu að ráða sé hún ekki tekin á Norðurlandi.

Skrifist á skilyrði við gæsaveiðar

Ólafur fuglafræðingur segir það alltaf koma fyrir að friðaðir fuglar sé drepnir hér á landi. Líklegt sé þó að þær aðferðir sem menn beita við gæsaveiðar sé ástæðan fyrir að menn felli Kanadagæs.

„Fyrir óvanan mann er gæs bara gæs. Það er mjög auðvelt að ruglast á gæsategundum, sérstaklega í ljósi þess hvernig gæsaveiðar eru stundaðar. Menn liggja í leyni í dagrenningu og fuglarnir koma inn við fyrstu skímu inn í túnin. Þá er yfirleitt besta veiðin. Þetta eru hópar að koma inn og menn fullir af veiðigleði og „flamma“ bara á þær gæsir sem koma,“ segir Ólafur.

Engu að síður ætti Kanadagæsin að vera vönum veiðimönnum auðþekkt. Ólafur segist þó vilja skrifa það að fuglinn á myndinni hafi verið skotinn á þau skilyrði sem menn veiða gæsina við á morgnana.

Nokkrar gæsategundir séu friðaðar en verði eitthvað fyrir barðinu á veiðimönnum, þá væntanlega fyrst og fremst blesgæsin sem var veidd áður fyrr en sé nú friðuð. Þær komi þúsundum saman frá Grænlandi hingað til lands á haustin á leið til Evrópu. Kanadagæsin sé hins vegar flækingsfugl á Íslandi en sé engu að síðu árviss flækingur. Þrátt fyrir það njóti hún friðunar hérlendis.

Brot gegn lögum um friðun fugla varða við sektum eða fangelsi til allt að tveggja ára og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis.

Ólafur segist muna eftir hliðstæðu og enn nöturlegra dæmi um veiðar á friðuðum fuglum.

„Það var annað ferðaþjónustufyrirtæki sem bauð upp á eitthvað sem þeir kölluðu uppstoppunarveiðar og höfðuðu til útlendinga að koma til landsins til að deyða fugla og stoppa upp. Þeir voru með mynd úr slíkri veiðiferð þar sem veiðimaðurinn hélt hróðugur á deyjandi húsönd sem er stranglega friðaður fugl. Þetta fyrirtæki býður ennþá upp á slíkar ferðir en myndina fjarlægðu þeir snarlega af vefnum þegar bent var á lögbrotið,“ segir Ólafur.

Af Facebook-síðu Ungra umhverfissinna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert