Jólapeysur gegn einelti

Jólapeysan, fjáröflunarátak Barnaheilla – Save the Children á Íslandi gegn einelti, var ýtt úr vör á leikskólanum Kirkjubóli í Garðabæ í dag. Hljómsveitin Pollapönk styður átakið og þeir tóku lagið með börnunum.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, ýtti átakinu úr vör ásamt Ernu Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla, með því að klæða Bangsann Blæ í jólapeysu. Gunnar tilkynnti við þetta tækifæri að hann hefði ákveðið að taka áskorun um að fara í jólapeysu í hot jóga, safnist nægilega mikið í áheitum á hann, að því er segir í tilkynningu.

„Í ár er safnað er fyrir Vináttu, forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti í leikskólum, en þangað má oft rekja rætur eineltis. Vinátta er starfrækt á Kirkjubóli í tilrauna- og aðlögunarskyni, en markmiðið er að bjóða það öllum leikskólum landsins með hjálp Jólapeysunnar.

Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar og bíður þess með hjálp Jólapeysunnar að faðma, hugga og gleðja börn á öllum leikskólum á Íslandi.

Jólapeysan 2014 snýst um að standast áskorun, íklædd jólapeysu. Opnað hefur verið fyrir skráningu á jolapeysan.is. Þar er hægt að skrá sig til leiks, finna upp á áskorun og hvetja vini og vandamenn til að heita á sig,“ segir ennfremur í tilkynningu.

Nánar um átakið hér.

Hér má sjá myndskeið sem sýnir þátttakendur lýsa því sem þeir ætla að gera og af hverju þeim finnst mikilvægt að vinna gegn einelti. 

mbl.is