„Rétt niðurstaða hjá Hönnu Birnu“

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Ég held að staðan sé orðin þannig að það sé ekkert annað hægt að gera. Á einhverjum tímapunkti í svona málum eru valkostirnir engir aðrir en að fara frá þegar það er farið að bitna á öllum málaflokknum, það ríkir ekki traust og trúverðugleiki á stjórnsýslunni og það er það sem skiptir mestu máli. Þetta er ekki spurning um einhverja sekt eða sakleysi.“

Þetta segir Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is vegna frétta af því að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ætli að segja af sér ráðherradómi og taka sér hlé frá stjórnmálum fram að áramótum. Hanna Birna hefur sætt mikilli gagnrýni vegna svokallaðs lekamáls en fyrrverandi aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, var í síðustu viku dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka upplýsingum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu.

„Ef þetta er niðurstaðan þá er það bara rétt niðurstaða hjá henni. Stundum verður umhverfið bara þannig að það er óvinnandi vegur fyrir stjórnmálamann að sinna sínu starfi. Ég held að lærdómurinn sem megi draga af þessu sé að hún hefði átt að stríga til hliðar um leið og lögreglurannsókn hófst. Þá hefði málið þróast með allt öðrum hætti,“ segir hann. Stjórnmálamenn megi einnig að hans mati draga þann almenna lærdóm af málinu að þegar slík mál komi upp þá sé farsælast að allir leggist á eitt að upplýsa þau en pakki ekki í vörn án þess að vera með allar staðreyndir á hreinu.

„Þetta er auðvitað erfitt fyrir Hönnu Birnu sem er að mörgu leyti góður stjórnmálamaður og gerir þarna mistök en er núna að horfast í augu við þau með þeim eina hætti sem ég held að hún geti gert. Svo bara kemur alltaf nýr dagur í pólitík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert