Óformleg samskipti skráð

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

Forsætisráðuneytið hefur svarað erindi umboðsmanns Alþingis þar sem óskað var eftir upplýsingum um viðbrögð við bréfi umboðsmanns Alþingis til forsætisráðherra frá því í janúar í fyrra sem sent var í framhaldi af athugun hans á samskiptum fyrrverandi innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindinu var spurt um þrjú atriði, þ.e. um samþykkt siðareglna fyrir ráðherra, um framkvæmd laga og reglna um skyldu til að skrá formleg samskipti og um stöðu aðstoðarmanna ráðherra að lögum og útgáfu leiðbeinandi erindisbréfs fyrir aðstoðarmenn.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að auk formlegra samskipta verði óformleg samskipti framvegis skráð í málaskrá ráðuneytis, ef þau teljast mikilvæg.

„Skrá skal í málaskrá ráðuneytis óformleg samskipti milli ráðuneyta sem og við aðila utan þess ef þar koma fram mikilvægar upplýsingar um málefni sem heyra undir ráðuneyti,“ segir í 2. grein reglna um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands.

Mikilvæg símtöl skráð

„Með óformlegum samskiptum er átt við munnleg samskipti, þar á meðal símtöl og fundi, þar sem lýst er afstöðu eða veittar upplýsingar sem teljast hafa þýðingu fyrir mál sem er til meðferðar í ráðuneyti eða teljast mikilvægar vegna málefna sem heyra undir ráðuneytið, enda komi afstaðan eða upplýsingarnar ekki fram í öðrum skráðum gögnum. Skrá skal hvenær samskipti fóru fram, milli hverra og efni upplýsinga sem um ræðir.“

Í svarinu er einnig fjallað um lagalega stöðu aðstoðarmanna ráðherra. „Ekki er gert ráð fyrir að ráðherra feli aðstoðarmanni sínum að sinna verkefnum sem varða stjórnarmálefni sem heyra undir ráðuneyti hans án þess að málið sé jafnframt kynnt ráðuneytisstjóra og eftir atvikum viðkomandi fagskrifstofu ráðuneytis,“ segir í svarinu.

Horft til siðareglna fyrir alþingismenn 

Hvað siðareglur fyrir ráðherra varðar kemur fram í svarinu að Alþingi hafi samþykkt þingsályktun um siðareglur fyrir ráðherra. „Þykir jafnframt rétt við endurskoðun siðareglna fyrir ráðherra að líta til framangreindra siðareglna fyrir alþingismenn m.a. til að bera saman innihald og meta samspil reglnanna. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki eins fljótt og unnt er.“

Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra.
Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra. Mynd/Capacent
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka