Fjárlögin „lyfta geði landsmanna“

Þingmenn ræða nú fjárlögin í þinghúsinu.
Þingmenn ræða nú fjárlögin í þinghúsinu. mbl.is/Ómar

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag að fjárlög næsta árs muni „lyfta geði landsmanna í þessum dimmasta mánuði ársins“ auk þess sem þau muni auka ráðstöfunartekjur.

Sigrún benti á, að aldrei hafi gefist lengri tími til þinglegrar meðferðar á fjárlögum og það hafi verið algjör nýjung að tekjuhlið frumvarpsins komi fram í byrjun september. Oftar en ekki hafi tekjuhliðin verið að koma fram um mánaðamótin nóvember/desember. Hún segir að ferlið við gerð fjárlaga hafi verið bæði opið og gegnsætt.

Hún vék máli sínu einnig að skuldaleiðréttingu stjórnvalda. „Það var eðlileg og sanngjörn krafa að leiðrétta stökkbreyttu lánin hjá Jóni og Gunnu. Og muna menn ekki - eru menn búnir að gleyma því - að á síðasta kjörtímabili voru 500 milljarðar afskrifaðir. 500 milljarðar felldir niður hjá fyrirtækjum og einstaklingum,“ sagði hún. 

Sigrún bætti við, að sem betur fer hafi ekki öll heimili orðið fyrir stökkbreytingu húsnæðislána. Sum heimili hafi verið á leigumarkaði og önnur setið í skuldlausri eign. Hún benti á að stjórnvöld hafi sagt að komið yrði til móts við þessa hópa með öðrum hætti. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs verði húsnæðisbætur og barnabætur hækkaðar auk þess sem aukið verði við niðurgreiðslu lyfja.

„En aðalkjarabótin er og verður að hér er engin verðbólga,“ sagði Sigrún að lokum.

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert