„Það er kolvitlaust veður“

Þessi mynd var tekin á Ísafirði fyrr í dag. Eins …
Þessi mynd var tekin á Ísafirði fyrr í dag. Eins og sjá má er skyggni lítið. Ljósmynd/Bæjarins besta/Sigurjón

„Maður finnur þegar rúðurnar taka á sig vind en það er kominn svo mikill snjór og hrím á gluggana að maður sér ekkert út,“ segir Gústaf Gústafsson, íbúi í Bolungarvík. Þar er gert ráð fyrir 36 m/sek og snjókomu kl. 17 en mikill vindur og úrkoma hefur verið í bænum eftir hádegi í dag.

Aðspurður segir Gústaf að færðin innanbæjar hafi verið farin að versna um tvöleytið þegar hann fór heim úr vinnu. „Þetta er ekki veður sem er gaman að vera úti í, lélegt skyggni og fljótt að safnast í skafla.“

Gústaf segir að heimilisfólkið heyri vel í vindinum en hann gerir ráð fyrir að halda sig inni í kvöld með fjölskyldunni, kveikja á kertum og taka því rólega.

„Maður hefur oft upplifað vond veður hér á Vestfjörðum. Maður lærir að gera ráð fyrir að þetta geti staðið yfir í einhvern tíma og að vera ekki á þvælingi. Það er eiginlega kolvitlaust veður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert