Það verður víða allt á floti

Meðfylgjandi spákort er af uppsöfnuðu afrennsli (úrkoma og leysingavatn) frá …
Meðfylgjandi spákort er af uppsöfnuðu afrennsli (úrkoma og leysingavatn) frá kl. 06 í morgun til kl. 23 annað kvöld. Veðurstofa Íslands

Það er útlit fyrir að það verði víða allt á floti þegar líður á morgundaginn. Fólk er beðið um að hreinsa vel frá niðurföllum því búast má við mikilli úrkomu í hlýindum og roki á morgun. En allt bendir til þess að það viðri vel fyrir flugeldaskot og brennur á gamlárskvöld víðast hvar.

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sé óhætt að tala um leiðindi þegar horft er á veðurkortið fyrir næsta sólarhringinn.

Það er byrjað að hvessa fyrir vestan og norðan og það er að bæta hressilega í vind. Í nótt og á morgun fylgir rokinu mikil úrkoma, einkum sunnan og vestanlands. Eins er að hlýna í veðri.

„Þetta allt saman er að valda mikilli hálku á vegum og vatnavöxtum. Vöð geta verið varasöm á ám,“ segir Birta og biður fólk um að fara varlega á stöðum eins og Þórsmörk. 

Hún segir að norðanmegin á Snæfellsnesi og á Tröllaskaga megi búast við miklu hvassviðri og nánast um allt Vesturland, Vestfirði og Norðvesturland. 

„Athygli er vakin á hláku í dag og má búast við hvassviðri eða stormi NV-til á landinu og líklegt er að flughált verði á vegum eftir langan snjóa- og frostakafla. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum, þar sem mikið bætir í rigningu á morgun, mánudag,“ segir í athugasemd sem veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands hafa sent frá sér.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Sunnan og suðvestan 10-18 m/s, en 13-20 um NV-vert landið. Búast má við sunnan 18-23 m/s í vindstrengjum N- og V-lands fram að hádegi á morgun. Mun hægari vindur S- og A-til. Dálítil rigning, en úrkomulítið syðst. Bætir í vind og úrkomu víðast hvar í kvöld og nótt, rigning víða um land og talsverð rigning S- og V-lands síðdegis. Snýst í mun hægari suðvestanátt vestast seinnipartinn á morgun. Hiti víða 2 til 8 stig, en 3 til 10 stig á morgun.

Að sögn Birtu verður úrkoman mest síðdegis á Suður- og Vesturlandi en það byrjar strax að rigna í nótt eða snemma í fyrramálið. Það fer síðan að draga úr úrkominni seint annað kvöld, segir Birta en þá snýst í suðvestanátt. 

Greiðfært er nú orðið í nágrenni höfuðborgarinnar en hálkublettir eru í Þrengslum og hálka víða í uppsveitum Suðurlands. Þæfingsfærð er á Þingskálavegi og þungfært efst á Skeiðavegi og Landvegi. Flughált er á Krísuvíkurvegi og Suðurstrandavegi.

Á norðanverðu Snæfellsnesi er óveður og einnig er flughálka á Útnesvegi, Heydalsvegi og Skógarströnd. Flughált og óveður er á Laxárdalsheiði en annars er hálka eða hálkublettir mjög víða á Vesturlandi.

Flughálka er á flestum leiðum á Vestfjörðum og einnig óveður í Ísafjarðardjúpi. Hálka er þó á Kleifaheiði, Mikladal og á Hálfdán.

Á Norðvesturlandi er flughált frá Sauðárkróki í Ketilás annars er hálka á vel flestum leiðum. Þæfingsfærð og óveður er á Öxnadalsheiði og flughált í Öxnadal. Óveður er á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er flughált frá Hjalteyri í Dalvík eins er flughált í Köldukinn, Aðaldal og í Reykjahverfi. Þungfært er á Hólasandi annars er hálka á vel flestum vegum norðaustanlands en óveður á Möðrudalsöræfum. Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austur- og Suðausturlandi.

Ágæt spá fyrir gamlárskvöld

Veðurspáin fyrir gamlársdag og gamlárskvöld hefur skánað mikið og er útlit fyrir að það verði þokkalegt verður um land allt. Kannski verður einhver éljagangur á einhverjum stöðum en annars bara ljómandi gott veður með hægum vind og lítilsháttar frosti eða við frostmark.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Suðvestan 5-13 m/s og dálítil rigning eða slydda, en úrkomulítið N- og A-lands. Hiti 0 til 5 stig.

Á miðvikudag (gamlársdagur):
Suðlæg átt, 8-13 m/s og víða slydda eða rigning. Hiti um eða yfir frostmarki. Kólnar síðdegis með éljum, fyrst V-til.

Á fimmtudag (nýársdagur):
Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og víða él. Frost 0 til 9 stig, kaldast inn til landsins.

Á föstudag:
Norðlæg eða breytileg átt, 8-15 m/s, með éljum og kólnandi veður.

Á laugardag:
Útlit fyrir norðlæga átt og dálítil él N- og A-til, annars bjart. Talsvert frost.

Það er von á roki og rigningu næsta sólarhringinn
Það er von á roki og rigningu næsta sólarhringinn mbl.is/Golli
Það viðrar ágætlega fyrir flugelda á gamlárskvöld
Það viðrar ágætlega fyrir flugelda á gamlárskvöld mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert