Hætta á að klakastykki falli úr Búlandshöfða

Klakastykki - mynd úr safni
Klakastykki - mynd úr safni Ljósmynd/BB/Jóhann Hannibalsson

Greiðfært er nú orðið í nágrenni höfuðborgarinnar en hálkublettir eru í Þrengslum og hálka víða í uppsveitum Suðurlands. Þæfingsfærð er á Þingskálavegi og þungfært efst á Skeiðavegi og Landvegi. Flughált er á Krísuvíkurvegi.

Á Snæfellsnesi hefur hlánað mikið og er þess vegna hætta á að klakastykki falli úr Búlandshöfða niður á veg og eru vegfarendur beðnir að fara varlega. Óveður er á norðanverðu Snæfellsnesi og einnig er flughálka á Útnesvegi, Heydalsvegi og Skógarströnd. Flughált og óveður er á Laxárdalsheiði en annars er hálka eða hálkublettir mjög víða á Vesturlandi.

Flughálka er á flestum leiðum á Vestfjörðum en þó er hálka á Kleifaheiði, Mikladal og á Hálfdáni.

Á Norðvesturlandi er flughált fyrir Vatnsnes, yfir Þverárfjall og frá Sauðárkróki í Ketilás annars er hálka á velflestum leiðum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og flughált í Öxnadal. Óveður er á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er flughált frá Hjalteyri til Dalvíkur og eins er flughált í Köldukinn, Aðaldal og í Reykjahverfi. Þungfært er á Hólasandi, annars er hálka mjög víða á vegum norðaustanlands og skafrenningur á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi en þæfingsfærð á Hróarstunguvegi. Hálka er einnig á Suðausturlandi, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert