Jón „volgur“ fyrir forsetaframboði

Jón Gnarr, fv. borgarstjóri.
Jón Gnarr, fv. borgarstjóri. mbl.is/Þórður

Fólk spyr Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra, nánast á hverjum einasta degi hvort hann ætli að bjóða sig fram til forseta. Sjálfur telur hann þó ekki tímabært að að velta vöngum um það en hann sé þó „volgur“ fyrir framboði. Þetta sagði hann í þættinum Vikulokunum á Rás 1 nú í morgun.

Helgi Seljan, stjórnandi þáttarins, spurði Jón hvort hann hygðist bjóða sig fram til forseta og vísaði til vangaveltna sem kæmu reglulega upp varðandi það.

„Það hefur komið til tals. Það er mikið hringt og mikið spurt. Fólk spyr mig um þetta eiginlega á hverjum einasta degi. Það er verið að gera aðför að mér. Ég fer bara að líkja þessu við einelti,“ sagði Jón í léttum dúr.

Hann tók það hins vegar fram að honum fyndist ekki tímabært að ræða mögulegt framboð til forseta, meðal annars af virðingu við embættið og þann sem því gegnir í augnablikinu. Ekki væri við hæfi að hann tjáði sig um það af eða á. Helgi spurði Jón þá hvort hann væri volgur fyrir að bjóða sig fram.

„Já, ég er volgur,“ svaraði Jón.

Hægt er að hlusta á þáttinn á vefsíðu Ríkisútvarpsins en þar var meðal annars einnig rætt um borgarstjórnarkosningarnar í vor og deilur um byggingu mosku.

mbl.is