Greiða uppgreiðslugjald

Viðskiptavinir Arion banka munu greiða uppgreiðslugjald þegar séreignarsparnaður verður greiddur inn á höfuðstól lána þeirra í tengslum við leiðréttinguna, kveði skuldabréfið á um slík gjöld. Lántakar greiða aftur á móti ekki uppgreiðslugjöld vegna höfuðstólsleiðréttingar ríkisstjórnarinnar.

Lántakar greiða uppgreiðslugjald í þeim tilfellum sem sparnaður er nýttur til að greiða inn á lán, kveði skuldabréfið á um slík gjöld. Á þetta við um öll form sparnaðar þar með talið úrræði ríkisstjórnarinnarsem felst í nýtingu séreignasparnaðar þar sem greiðendur njóta þess að greiða ekki skatt af sparnaðnum.

Þannig gildir það sama um þá sem nýta sér úrræði ríkisstjórnarinnar og þá sem greiða inn á lánið með annars konar sparnaði en séreign. Uppgreiðslugjaldið er greitt í hvert skipti sem greitt er inn á lánið.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Arion banka við spurningum mbl.is um málið.

Lán sem voru tekin eftir nóvember 2013 falla undir ný lög um neytendalán og fela í sér heimild til að greiða allt að eina milljón króna inn á lán á ári án þess að til komi uppgreiðslugjald. Ekki er því greitt uppgreiðslugjald þegar séreignasparnaður er nýttur til að greiða inn á slík lán.

Stærsti hluti íbúðalána Arion banka er frá því fyrir nóvember 2013 og er með föstum vöxtum og kveða lánaskilmálar á um 2% uppgreiðslugjald.

„Rétt er að taka fram að uppgreiðslugjöld eru mikilvægur þáttur við ákvörðun vaxtakjara. Almennt er það svo, að öllu öðru jöfnu, að lán sem kveða á um uppgreiðslugjald bera lægri vexti en þau sem ekki eru með uppgreiðslugjaldi,“ segir í skriflegu svari Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert