Kostnaðurinn tæpar 200 milljónir

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kostnaður ríkissjóðs, sem fallið hefur til vegna innleiðingar á rafrænum skilríkjum, nemur 191,5 milljónum króna frá árinu 2007. Mestur hluti þeirrar fjárhæðar hefur farið í árlegt framlag vegna samstarfssamnings við Auðkenni hf. um almenna notkun rafrænna skilríkja. Framlag ríkissjóðs vegna þess verkefnis hefur numið 10 milljónum króna á ári sem tekið hefur breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur, þingflokksformanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um innleiðingu rafrænna skilríkja. Svandís spurði einnig um kostnaðinn við kynningar og auglýsingar vegna rafrænna skilríkja í tengslum við höfuðstólslækkun íbúðalána. Samkvæmt svar ráðherrans nemur sá kostnaður 560 þúsund krónum. Þess utan hafi verið vakin athygli á rafrænum skilríkjum í almennum auglýsingum um höfuðstólslækkunina.

Ennfremur spurði þingmaðurinn um það með hvaða hætti hefði verið staðið að ráðningu verkefnastjóra vegna innleiðingar á rafrænum skilríkjum. Bjarni svarar því til að verkefnastjórn vegna innleiðingarinnar hafi verið skipuð síðasta haust en þar eigi fjármálaráðuneytið fulltrúa ásamt Samtökum fjármálafyrirtækja og ríkisskattstjóra. Verkefnastjórnin hafi tekið þá ákvörðun að fá verkefnastjóra til þess að sinna ákveðnum tímabundnum verkefnum í verktöku.

Ákveðið hafi verið að semja við Árna Sigfússon, stjórnsýslufræðing og fyrrverandi bæjarstjóra í Reykjanesbæ, í þeim efnum og hafi verkefnastjórnin metið hann hæfan til verksins. Áætlaður heildarkostnaður vegna þess sé 5,6 milljónir króna sem greiddur sé sameiginlega af ríkinu og Samtökum fjármálafyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert