„Komin með nóg af fordómum“

Nadia Tamimi ákvað að tala frá hjartanu um sína upplifun, …
Nadia Tamimi ákvað að tala frá hjartanu um sína upplifun, og muninn á því að vera múslimi á Íslandi í dag og fyrir þrjátíu árum. Ljósmynd/Andres Zoran Ivanovic

„Ég er nú engin ræðumanneskja en ég ákvað að slá til því ég er komin með svolítið nóg af árásunum á okkur múslimana og fordómunum eftir árásirnar í París,“ segir Nadia Tamimi, sem í dag hélt ræðu á málþingi um stöðu múslima, málfrelsi, trúfrelsi og þá hættu sem öfgafólk getur skapað í samfélaginu, sem fram fór í Iðnó.

Yfirskrift fundarins var: Stafar hætta af múslimum á Íslandi? og komu þar fram sjö framsögumenn auk Nadiu. Voru það Bjarni Randver Sigurvinsson, guðfræðingur og trúarbragðafræðingur, Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Gústaf Níelsson, sagnfræðingur, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri mannréttindaskrifstofu Íslands, Salvör Kristjana Gissurardóttir, háskólakennari, Sólveig Anna Jónsdóttir, leikskólaliði og aktivisti og Sverrir Agnarsson, formaður félags múslima á Íslandi. Fundarstjóri var Markús Þórhallson, sagnfræðingur og þáttagerðarmaður á Útvarpi Sögu.

Í lok fundarins hafði spurningunni verið svarað neitandi af stærstum hluta þeirra, þrátt fyrir að einn ræðumaður og hluti fólks úr salnum væru ekki sammála því.

Mikill munur á viðhorfum í dag og fyrir 30 árum

Nadia, sem er alin upp á Íslandi, segist hafa ákveðið að tala frá hjartanu um sína upplifun, og muninn á því að vera múslimi á Íslandi í dag og fyrir þrjátíu árum. „Þegar ég var yngri þá var þetta allt svo spennandi, fallegt og saklaust. Spurningarnar sem ég fékk voru til dæmis um það hvort allir væru á úlföldum í Palestínu og hvort einhver sjónvörp væru þar,“ útskýrir hún. „Eini munurinn á mér og öðrum börnum var að ég bar ekki kross og borðaði ekki svínakjöt.“

„Þá var pabba mínum líkt við Bill Cosby en nú er honum líkt við Bin Laden,“ segir hún, en faðir hennar er Salmann Tamimi, fyrrum formaður Félags múslima á Íslandi.

Finnur töluvert fyrir fordómum

Nadia segist hafa upplifað töluverða fordóma hér á landi vegna trúnar síðustu ár. „Ég hef oft þurft að fara með börnin mín út af matsölustöðum og hárgreiðslustofum þar sem verið er að drulla yfir afa þeirra og trúna. Ég vil auðvitað ekki að þau heyri þessa hluti.“

Þá segir hún fordómana hafa verið sérstaklega mikla eftir árásirnar í París í síðustu viku. „Það er svolítið ætlast til þess að ég eða aðrir múslímar svörum fyrir það og tökum ábyrgð á því. Við fordæmum þetta að sjálfsögðu en getum ekki tekið ábyrgð á þessu.“

„Þessir fáu særa samt“

Nadia segir flesta Íslendinga mjög opna fyrir hennar trú, en þeir fáu fordómafullu séu mjög háværir. „Þessir fáu særa samt,“ segir hún.

Í ræðu sinni tók Nadia nærtækt dæmi um það þegar amma hennar var myrt á heimili sínu í Espigerði árið 1999. „Það var íslenskur kristinn maður sem réðst á hana af tilefnisleysi og stakk hana hrottalega 17 sinnum. Ég hef aldrei hugsað um að dæma Íslendinga eða kristna menn út frá þessu. Ég dæmi aðeins þennan eina mann fyrir það sem hann gerði.“

Börnin finna einnig fyrir fordómunum

Nadia hefur verið í sambandi með kristnum manni síðustu 14 ár og á þrjú börn. Hún segist þurfa að vanda sig sérstaklega og tala oft við börn sín um fordóma. „Ég vil ekki að þau haldi að allir kristnir menn eða annarra trúa hugsi svona um okkur.“

Hún segir 14 ára gamlan son sinn einkum finna fyrir fordómum. „Ég hef beðið hann sérstaklega að fara ekki inn á kommentakerfi á netinu en stundum laumast hann þar inn og verður rosalega sár og reiður. Hann þekkir auðvitað afa sinn sem yndislegan mann og honum sárnar rosalega.“

„Búið að fara langt yfir strikið“

Loks segir hún þróunina sorglega, en vonar að fáfræðin verði upprætt. „Þetta er mjög sárt og það er sorglegt hvert þetta er að stefna. Þegar þetta fær að grassera svona og stjórnmálamenn eru meira að segja farnir að taka þátt í þessu þá er búið að fara langt yfir strikið.

„Ég er bara venjuleg íslensk kona og trúi ekki öðru en að við viljum öll fá virðingu og frið í okkar daglega lífi, sama hverrar trúar við erum.“

Hér fyrir neðan má sjá ræðu Nadiu í heild.

Yfirskrift fundarins var: Stafar hætta af múslimum á Íslandi? og …
Yfirskrift fundarins var: Stafar hætta af múslimum á Íslandi? og komu þar fram sjö framsögumenn auk Nadiu, sem er sú þriðja frá vinstri. mbl.is/Eggert
Um 150 manns komu saman á málþinginu í dag.
Um 150 manns komu saman á málþinginu í dag. mbl.is/Eggert
Salmann Tamimi, fyrrum formaður Félags múslima á Íslandi og stofnandi …
Salmann Tamimi, fyrrum formaður Félags múslima á Íslandi og stofnandi félagsins Ísland-Palestína á fundinum í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina