Komst á Suðurpólinn í kvöld

Einar Finnsson.
Einar Finnsson. Ljósmynd/Einar Finnsson

Einar Finnsson, leiðangurstjóri hjá Icelandic Mountain Guides, komst á Suðurpólinn um klukkan 22:00 í kvöld. Einar leiddi hóp manna, Tim Garrett frá Ástralíu, Hugh Dougall frá Kanada, og William Morrison frá Bretlandi, á pólinn eftir erfiða 57 daga göngu.

„Síðasti dagur gekk nokkuð hratt og vel. Fínasta skyggni í dag. En þetta er búið að vera erfitt hérna á hásléttunni, kalt og rysjótt veður,“ sagði Einar glaður en þreyttur þegar Morgunblaðið náði tali af honum. Var hann þá kominn inn úr kuldanum, staddur í 20 stiga hita og sagði þá tilfinningu yndislega.

„Nú ætlum við að fá okkur einn bjór og hann var sko verðskuldaður. Svo ætlum við að fá okkur eitthvað gott að borða og bara njóta þess að vera inni í hitanum.“ Nánar er rætt við Einar í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is