17 bílastæði á lóð risahótels á Hlemmi

Í breytingartillögunni á deiliskipulagi er lagt til að hætt verði …
Í breytingartillögunni á deiliskipulagi er lagt til að hætt verði við smíði 1.000 fermetra bílakjallara og verða þá 17 bílastæði við hótelið.

Lögð hefur verið fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi á Laugavegi 120, þar sem áætlað var að 7.000 fermetra hótel yrði ásamt 1.000 fermetra bílakjallara. Samkvæmt breytingunni á að hætta við smíði bílakjallarans og er þá aðeins gert ráð fyrir 17 bílastæðum á lóð 7.000 fermetra hótelsins. Minnihlutinn lagðist gegn breytingartillögunni í bókun á fundi í borgarstjórn.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að bílastæðin muni ekki duga fyrir starfsmenn hótelsins. „Þetta mun ekki duga fyrir það starfsfólk sem kemur til með að vinna þarna. Það er nokkuð ljóst. Þetta þýðir að það verður ennþá meira álag á nærumhverfið. Það er þegar farið að kvarta verulega undan því að það vanti bílastæði á svæðið og það mun bara aukast með þeirri uppbyggingu sem stendur yfir þarna,“ segir Júlíus.

Segir umferð í borginni aukast

Þá bendir hann á að bílaumferð er að aukast. „Það er ekki svo að við séum þeirrar skoðunar að það eigi endalaust að fjölga bílstæðum, en þegar það er verið að setja upp starfsemi sem þessa sem kallar á viðamikil umsvif og aðföng þá er engin fyrirhyggja í því að það skuli ekki vera gert ráð fyrir því að þeir sem komi þangað og vinni þar geti einhvers staðar lagt sínum bílum. Þetta er hluti af þeirri stefnu sem hefur verið undanfarið að fækka bílastæðum í þeirri trú að við það hætti fólk að mæta til vinnu á bílum. Og við sjáum að þetta er ekki að ganga eftir því sniðtalningar sem birtar voru í síðustu viku sýna að umferð í Reykjavík er að aukast en ekki minnka.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti þar sem deilt er um bílastæðafjölda á svæðinu, en í fyrra var samþykkt að hefja byggingu námsíbúða rétt hjá Hlemmi þar sem gert var ráð fyrir 0,2 bílastæðum á íbúð, eða eitt bílastæði á hverjar fimm íbúðir.

Mörg hótel án bílastæða

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir mörg hótel nálægt Hlemmi ekki hafa eitt einasta bílastæði. „Við teljum ekki að það sé þörf á að hafa bílastæðakjallara þarna, auk þess er mjög erfitt að koma fyrir bílastæðakjallara út af miklum landhalla. Þeir sem eru að reka hótelið telja ekki nauðsynlegt að hafa mikið af bílastæðum þarna og því töldum við í meirihlutanum ekki ástæðu til að þvinga þá til þess að byggja bílakjallara.

Eftir því sem bílastæðum fjölgar þá hefur það tilhneigingu til að auka bílaumferð og þar sem þetta er bókstaflega á helstu strætóskiptistöð borgarinnar þá ætti að vera frekar þægilegt að nota almenningssamgöngur. Svo kom fram í rökstuðningi fyrir tillögunni að það eru nokkuð mörg hótel nálægt Hlemmi þar sem það er ekki eitt einasta bílastæði,“ segir Hjálmar.

„Ég veit ekki hversu margir starfsmennirnir eru en þeir eru miklu færri en þeir sem unnu þarna áður og þá var enginn bílastæðakjallari þannig að þetta ætti nú að ganga. Og ég tel líka að þessi rök að það verði að vera mjög mikið af bílastæðum á einhverri lóð vegna þess að annars leita bílarnir í nágrennið vera hæpin, því þá geta einhverjir nágrannar kannski í þar næstu götu stoppað mjög þarfar framkvæmdir. Í fyrsta lagi á enginn bílastæðin í götunum. Göturnar eru borgarland. Verandi í borg er ekki hægt að ganga að því vísu að geta alltaf lagt fyrir utan heima hjá sér, allavega geri ég það ekki,“ segir Hjálmar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert