Ekkert kjöt sjáanlegt í bökunni

Rannsókn á sýni úr matvælum. Myndin er úr safni og …
Rannsókn á sýni úr matvælum. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Aðferðin sem notuð var til að greina nautakjötsböku Gæðakokka er sú sama og notuð er í réttarsölum um allan heim þar sem fólk er jafnvel dæmt til dauða á grundvelli hennar. Þetta kom fram í meðferð máls gegn Gæðakokkum vegna kjötlausra nautakjötsbaka í morgun. Eigandi fyrirtækisins telur niðurstöður Matís rangar.

Starfsmenn Gæðakokka, Matvælastofnunar og Matís komu fyrir Héraðsdóm Vesturlands í morgun til að bera vitni um hvort nautakjöt hafi verið í nautabökum Gæðakokka árið 2013. Verjandi fyrirtækisins bar meðal annars brigður á hversu áreiðanleg rannsókn Matís á sýnum úr bökunum var. Hún hafi ekki getað greint kjötinnihald sem var innan við 5%.

Framleiðslustjóri og starfsmaður Gæðakokka, sem nú heita Kræsingar ehf., sögðu að það hafi aldrei komið fyrir að ekkert kjöt hafi ratað í kjötbökur fyrirtækisins. Matvælastofnun komst að þeirri niðurstöðu í febrúar árið 2013 í kjölfar hrossakjötshneykslisins sem skók Evrópu á þeim tíma.

Starfsmenn Matvælastofnunar lýstu því síðan hvernig þeir hefðu farið í verslanir og keypt bæði ferska og unna kjötrétti í því skyni að kanna hvort að hrossakjöt væri í þeim. Tilviljun hafi ráðið því að vörur Gæðakokka hafi verið teknar til skoðunar.

„Þið hafið ekki óvart bara tekið sýni úr deiginu?“

Anna Kristín Daníelsdóttir, erfðafræðingur hjá Matís, sem greindi bökurnar sagði engan vafa leika á því að rannsóknin á bökunum hafi verið fullnægjandi til þess að skera úr um hvort að kjöt hafi verið að finna í bökunum. 

„Enda eru þessar aðferðir notaðar í réttarsölum um allan heim þar sem fólk er jafnvel dæmt til dauða,“ sagði hún.

Tilraunin hafi verið endurtekin þrisvar sinnum vegna þess að ekkert kjöt fannst í þeim. Sækjandi spurði hana hvort að jafnframt lagt hafi verið sjónrænt mat á bökunum fyrir utan DNA-rannsókn.

„Sjónrænt mat á innihaldinu var að fyllingin væri mauk þar sem var í rauninni ekki sjáanlegar kjöttægjur eða neitt sem líkist kjöti í bökunni,“ svaraði Anna Kristín.

Öll fyllingin hafi verið rannsökuð auk þess sem önnur baka sem barst til rannsóknar á sama tíma hafi verið rannsökuð í apríl sama ár. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var á sama veg. Ekkert nautakjöt reyndist heldur í þeirri böku en merki um hrossakjöt fundust aftur á móti.

Reimar Snæfells Pétursson, verjandi Kræsinga, áður Gæðakokka, spurði Önnu Kristínu ítarlega út í aðferðafræðina sem notuð var við rannsóknirnar á kjötbökunum. Við rannsóknina á fyrri bökunni hefði þurft að vera að minnsta kosti 0,7 grömm til að það mældist. 

Kom fram að bökurnar hafi verið rannsakaðar upp til agna þannig að þær séu ekki til lengur sem sönnunargagn í málinu.

„Þið hafið ekki bara óvart tekið sýni úr deiginu?“ spurði Reimar. 

„Nei, alveg örugglega ekki,“ svaraði erfðafræðingurinn.

mbl.is