Reykvísk börn fá líka gleraugu

Um 1.300 sólmyrkvagleraugu voru seld í Kringlunni í dag. Sölu …
Um 1.300 sólmyrkvagleraugu voru seld í Kringlunni í dag. Sölu verður haldið áfram á morgun. Árni Sæberg

„Það voru margir sem keyptu mörg gleraugu; fyrir fjölskyldur sínar, ömmur og afa,“ segir Sævar Helgi Bragason, for­maður Stjörnu­skoðun­ar­fé­lags­ Seltjarn­ar­ness. Mesti sól­myrkvi sem sjá­an­leg­ur hef­ur verið á Íslandi í 61 ár verður að morgni dags 20. mars og stendur félagið því fyrir sölu á sólmyrkvagleraugum um þessar mundir. Næsti sólmyrkvi, sjáanlegur frá Íslandi, eftir 20. mars næstkomandi verður árið 2026 og næst þar á eftir árið 2196.

Um 1.300 gleraugu seldust í dag þegar Stjörnuskoðunarfélagið var við Kaffitár í Kringl­unni og seldi sól­myrkv­agler­aug­un á 500 krón­ur stykkið. 

Til­gang­urinn með gleraugnasölunni, fyrir utan að tryggja öryggi þeirra sem hyggjast berja sólmyrkvann augum­, er að safna fé fyr­ir gjöf fé­lags­ins til ís­lenskra grunn­skóla­barna; 50.000 sól­myrkv­agler­aug­um, sem gera fólki kleift að horfa beint á myrkv­ann án þess að skaða sjón­ina.

Sævar segir „þverskurð þjóðarinnar“ hafa lagt leið sína í Kringluna í dag til að tryggja sér eintak af gleraugunum. „Þetta er fólk á öllum aldri og af öllum stærðum og gerðum,“ segir Sævar, léttur í bragði.

Langtímaspáin góð

Sævar segir eina óvissuþáttinn við sólmyrkvann vera veðrið. „Ef fólk vill sjá sólmyrkvann þá þarf það að vera á þeim stað sem veðrið er gott. Langtímaspáin bendir til þess að það verði gott veður í Reykjavík,“ segir Sævar og ítrekar að fólk skuli fara öllu með gát.

„Við erum alls ekki að grínast með það. Það eru sögur af fólki sem hefur valdið sér augnskaða við svona atburði af því það fór ekki gætilega og var ekki tilbúið að borga fimmhundruð kall fyrir svona gleraugu,“ segir Sævar og hvetur fólk því til að kaupa gleraugu til að eiga til framtíðar og styðja við framtakið í leiðinni.

„Við sjáum tunglið ganga fyrir sólina frá okkur séð. Það mun dimma örlítið þegar myrkvinn er í hámarki,“ segir Sævar og gantast hann með það að nú fari hver að verða síðastur til að sjá sólmyrkva en eftir 600 milljón ár mun ekki sjást eins mikill sólmyrkvi frá jörðu.

„Því tunglið er að fjarlægjast jörðina útaf flóðkröftum. Dagurinn er að lengjast hjá okkur og tunglið verður komið svo langt frá jörðu að það mun aldrei ná að hylja sólina alveg. Því má segja að nú séu síðustu forvöð,“ segir hann og hlær.

og þegar maður horfir í sólina með sólmyrkvagleraugum að sjálfsögðu, örmjó ræma eftir af s´linni í heiminum, svona mikill myrkvi hefur ekki sést í 61 ár og sést ekki aftur fyrr en 2026, eftir 11 ár.

Fá grunnskólanemendur í Reykjavík gleraugu?

Aðspurður hvort grunnskólakrakkar í Reykjavík fái gleraugu eins og í öðrum sveitarfélögum segir Sævar svo vera.

„Að nafninu til verða þær gjafir til skólanna sem kennslugögn og svo er það skólastjóranna að ákveða hvort krakkarnir fái að eiga gleraugun,“ segir Sævar. Hann segist vera búinn að heyra í flestum skólastjórnendum í Reykjavík sem taki allir frábærlega í framtakið. „Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að allir kennarar verði sendir út með hópana sína og það verði mörg þúsund skólabörn um land allt að glápa upp í himininn og sjá eitt sjaldgæfasta sjónarspil sem hægt er að fylgjast með,“ segir Sævar.

Í Kringlunni á morgun og í Smáralind næstu helgi

Stjörnuskoðunarfélagið verður í Kringlunni aftur á morgun og í Smáralind um næstu helgi. Sævar segir íbúa landsbyggðarinnar geta pantað gleraugu á Stjörnufræðivefnum.

„Sólmyrkvinn sést vel frá öllu Íslandi svo framarlega sem sólin láti sjá sig. Gleraugun gera manni kleift að fylgjast með myrkvanum frá upphafi til enda. Þegar tunglið byrjar að bíta úr sólinni þá er sólin enn rosalega björt og hættulegt að horfa á hana,“ segir Sævar. Hann hefur sjálfur séð nokkra sólmyrkva og segir það alltaf jafn magnað sjá. „Það er akkúrat drifkrafturinn í það að gera öllum kleift að sjá sólmyrkvann,“ segir Sævar.

Þá munu þau börn sem ekki geta séð myrkvann, t.d. vegna blindu, fá afhenta upphleypta mynd af sólinni sem þau geta snert á. Kennarar verði svo fengnir til að færa skífu fyrir sólina þannig krakkarnir geti fundið fyrir því hvernig myrkvinn lítur út. „Við reynum að hugsa fyrir alla,“ segir Sævar. 

Stjörnufræðivefurinn

Frétt mbl.is: Myrkvinn sá mesti í sextíu ár

Sólmyrkvi mun sjást frá Íslandi föstudaginn 20. mars.
Sólmyrkvi mun sjást frá Íslandi föstudaginn 20. mars. Árni Sæberg
mbl.is