Enn óvíst með styrkinn frá Sádi Arabíu

Ibrahim Sverrir Agnarsson er formaður Félags múslima.
Ibrahim Sverrir Agnarsson er formaður Félags múslima. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki liggur enn fyrir hvort Félag múslima á Íslandi tekur við styrk frá Sádi Arabíu til moskubyggingar upp á eina milljón Bandaríkjadala eða sem nemur um 136 milljónir íslenskra króna. Sendiherra landsins, Ibrahim S.I. Alibrahim, upplýsti um styrkinn í byrjun þessa mánaðar þegar hann afhenti Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum.

Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, segir ljóst að styrkurinn væri ætlaður félaginu en hann hafði ekki heyrt af honum áður en sendiherrann greindi frá málinu. Spurður hvort tekin hefði verið ákvörðun um að taka við styrknum vegna fyrirhugaðrar byggingar mosku í Reykjavík segir Ibrahim Sverrir það ekki liggja fyrir. Sendiherrann, sem hafi aðsetur í Svíþjóð, hafi verið kallaður heim til Sádi Arabíu en félagið hafi verið í sambandi við ritara hans að undanförnu.

Ibrahim Sverrir ítrekar fyrri ummæli um að ekki verði tekið við styrknum ef honum fylgja skilyrði um afskipti af stjórn Félags múslima á Íslandi. Það bryti í bága við reglur félagsins. En ef engin slík skilyrði fylgi verði málið skoðað.

Mikil umræða varð um málið í kjölfar þess að sendiherra Sádi Arabíu greindi frá fyrirhuguðum styrk og kallaði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, meðal annars eftir því að það yrði upplýst. Óskaði hann eftir því að mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar ynni úttekt á því sem og reynslu nágrannaþjóða í þessum efnum.

Spurður um stöðuna í þeim efnum segir Dagur að úttektin liggi ekki fyrir. Hún hafi ekki komið inn á hans borð enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert