Stórt skref stigið í aðgengismálum

Frá fundinum í gær. Fulltrúar SEM og MND félaganna. Á …
Frá fundinum í gær. Fulltrúar SEM og MND félaganna. Á myndinni má sjá feðginin Árnnýju Guðjónsdóttir og Guðjón Sigurðsson, formann MND félagsins, Arnar Helga Lárusson, formann SEM og Berg Þorra Benjamínsson, varaformann Sjálfsbjargar. ljósmynd/Höskuldur Þórhallson

„Þetta gekk mjög vel og eiginlega vonum framar,“ segir Arnar Helgi Lárusson, formaður Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra (SEM), um fund sem samtökin áttu í gær með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Var þar leitast eftir því að þingmenn myndu útbúa þingsályktunartillögu sem sneri að bættu aðgengi og flytja hana fyrir þinginu.

Sett yrði á laggirnar aðgengiseftirlit

„Við vorum að leggja þarna fram og leitast eftir því að sett yrði á laggirnar aðgengiseftirlit líkt og eldvarnareftirlitið og heilbrigðiseftirlitið til dæmis,“ útskýrir Arnar Helgi. „Eins og í byggingarreglugerðum er talað um brunavarnir en svo er sér ákvæði um eldvarnir og eftirlit með því. Aðgengisliðurinn er innan byggingareglugerðar en það er ekkert eftirlit með því.“

Hann segir nefndina hafa sýnt einróma áhuga á því að flytja mál af þessu tagi á Alþingi, og niðurstaðan hafi verið sú að nefndin muni í heild sinni fara með málið. Arnar segist bjartsýnn um það að vinna við þetta fari á fullt á næstunni svo hægt verði að leggja fram þingsályktunartillögu um málið strax næsta haust. „Ef þetta næst fram er það stærsta réttindabarátta sem fatlaðir einstaklingar hafa unnið í 40 ár,“ segir hann. „Ég er í skýjunum yfir þessu og endalaust þakklátur fyrir að hafa fengið að hitta nefndina. Þetta er mikill sigur.

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir mikinn samhug hjá nefndinni að skoða það sem lagt var á borð hennar í gær. „Við hlustuðum á þá og ætlum að kalla til Mannvirkjastofnun. Það voru hugmyndir uppi um að sömu aðilar og sinna brunaeftirliti gætu sinnt þessu líka, en við erum núna að velta fyrir okkur hvaða leiðir eru bestar; hvort sem það verður þingsályktunartillaga en einhvers konar lagabreyting. Það er ekki komið á hreint en það er vilji hjá nefndinni að vinna mjög hratt og örugglega í því að bæta úr þessu.“

95% húsa á Íslandi óaðgengileg

Arnar segir byggingareglugerðina hafa verið mjög skýra í 36 ár um að aðgengi eigi að vera í lagi, en samt séu 95% húsa á Íslandi óaðgengileg. Á Íslandi séu um sjö þúsund einstaklingar í hjólastól, en slæmt aðgengi sé stærsti parturinn í því að fullgreindir einstaklingar í hjólastólum missi tengsl við ástvini, vini, fjölskyldu, tengdafjölskyldu, vinnumarkaðinn og samfélagið allt í heild sinni.

„Ástæðan fyrir að fólk innilokast er höfnunin frá samfélaginu. Maður er hvergi velkominn og kemst hvergi,“ segir Arnar. „Ef það gleymist til dæmis að hugsa um aðgengi þegar pantaður er salur fyrir fermingu þarf að bera mann inn og þá fer sjálfsvirðingin niður fyrir allt. Ef það er hins vegar pantaður salur með aðgengi og maður kemst ekki þá er maður orðinn vondi karlinn því það kostar meira. Það er alltaf verið að setja fólk í óþægilega stöðu og í sumum tilfellum kjósa fjölskyldur að hætta að bjóða fólki í hjólastól því það er meira vesen. Ég veit til þess að svona lagað hafi tvístrað fjölskyldum.“

Mikilvægt að hætta að útiloka ákveðna hópa frá samfélaginu

Arnar segir aðgengi á Íslandi herfilegt, og fötluðum einstaklingum líði oftar en ekki eins og þeir séu byrði á samfélaginu. „Maður kemst ekki neitt og getur ekki neitt en samt borgar maður sína skatta og fer eftir sínum skyldum. Það er nóg fyrir okkur að berjast við náttúruna og það verða alltaf hindranir á okkar vegi, en það þarf ekki að gera þær erfiðari en þær eru fyrir,“ segir hann og heldur áfram. „Það eru hundruð einstaklinga í þessu samfélagi sem myndu pluma sig vel ef aðgengi á Íslandi væri sómasamlegt.“

Þá þurfi fatlaðir einstaklingar oft að sækja einföldustu þjónustu um langan veg því sú nálægasta er óaðgengileg fyrir hjólastólanotandann sem er jafnvel foreldri barna sem þurfa fylgd í íþróttir og tómstundir. Stjórnarskrá Íslands sem og þeir alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að kveða skýrt á um að óheimilt er að mismuna einstaklingum á grundvelli fötlunar og með aðgengismál í ólagi eigi slík mismunun sér stað daglega. Mikilvægt sé að hætta að útiloka ákveðna hópa samfélagsins og koma aðgengismálum hér á landi í lag.

Í gær var stigið stórt skref í átt að bættu …
Í gær var stigið stórt skref í átt að bættu aðgengi fatlaðra. mbl.is/Ernir
Arnar Helgi Lárusson hefur lengi barist fyrir bættu aðgengi.
Arnar Helgi Lárusson hefur lengi barist fyrir bættu aðgengi. Ljósmynd/IF
mbl.is