Moska í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum

Kirkjan Santa Maria della Misericordia, þar sem íslenski skálinn verður.
Kirkjan Santa Maria della Misericordia, þar sem íslenski skálinn verður.

Verk myndlistarmannsins Christophs Büchel, sem verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum sem hefst 9. maí næstkomandi, nefnist Moskan, The Mosque á ensku, og verður sett upp í afhelgaðri kirkju frá 10. öld.

Samkvæmt upplýsingum frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar er verkið unnið í samstarfi listamannsins og samfélaga múslíma á Íslandi og í Feneyjum en í hinum gamla og sögulega hluta Feneyja hefur aldrei risið moska, þrátt fyrir sterk söguleg áhrif íslamskrar menningar þar.

Sagt er að tilgangurinn með verkinu sé „að draga athygli að stofnanavæddum aðskilnaði og fordómum í samfélaginu“. Til stendur að bjóða upp á fræðslu- og menningarkynningar fyrir gesti sýningarinnar, meðal annars til að auka skilning á mismunandi menningarheimum. Sýningarstjóri verkefnisins er Nína Magnúsdóttir.

Leynd yfir verkinu

Í fyrra var í fyrsta skipti auglýst eftir umsóknum um verkefni til að setja upp í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum, elstu og fjölsóttustu myndlistarhátíð samtímans. Talsverða athygli vakti þegar valnefnd kaus tillögu Büchel, tæplega fimmtugs svissnesks listamanns sem lítið hefur farið fyrir í íslensku listalífi þótt hann sé búsettur á Seyðisfirði.

Hann hefur lengi starfað með einu þekktasta galleríi samtímans, Hauser & Wirth, og sett upp athyglisverðar og viðamiklar innsetningar í virtum söfnum og sýningarsölum. Á dögunum hlaut hann virt verðlaun, Swiss Grand Prix Art – The Prix Meret Oppenheim.

Talsverð leynd hefur hvílt yfir verki Büchel enda viðfangsefnið að margra mati viðkvæmt. Í tilkynningunni er vitnað í Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sem segist vona að verkið verði jákvætt innlegg í umræðu um umburðarlyndi.

Þá segir formaður Félags múslima í Feyjum um íslenska skálann: „Blað hefur verið brotið í sögu Feneyjaborgar með nýju listformi – list sem er ekki einungis takmörkuð við málverk eða höggmyndir, heldur list sem mætir kalli nútímans um samtal.“

Moskan verður sett upp í hinni fornu kirkju heilagrar Maríu hinnar miskunnsömu, Santa Maria della Misericordia, sem er frá 10. öld en afhelguð og hefur ekki verið opin almenningi í fjóra áratugi.

Fyrsta moskan

Þá sjö mánuði sem sýningar tvíæringins eru opnar, er verkinu sem byggist á þeirri staðreynd að þetta verður fyrsta moskan í hinum sögulega hluta Feneyja, ætlað „að tengja saman þúsundir múslima í Feneyjum sem eru frá 29 löndum, múslimska ferðamenn sem sækja borgina heim ásamt öðrum Feneyingum og ferðamönnum,“ eins og segir í tilkynningunni.

Kirkjan mun verða miðstöð fyrir ýmsa starfsemi samfélags múslima í Feneyjum og verður almenningi boðið upp á ýmiskonar fræðslu.

Büchel tengir hugmynd verksins við söguleg áhrif íslamskrar menningar á Feneyjar og þær félags- og stjórnmálalegu skírskotanir sem borgin hefur í hnattrænum búferlaflutningum nútímans. Þá hafi hvorki verið byggðar moskur í Feneyjum né á Íslandi en í stuðningsyfirlýsingu Sverris Agnarssonar, formanns Félags múslima á Íslandi, segir að félagið sé stolt af stuðningi sínum við verkið á sama tíma og takmark þess nálgast, „að byggja fyrstu moskuna í nyrstu höfuðborg heims. Það er von okkar að verkefni sem þessi leiði til líflegrar starfsemi meðal hófsamra, víðsýnna múslima á alþjóðavísu“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »