Fylgdist með kosningunum 1979

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingkosningar fara fram í Bretlandi í dag og er væntanlega um fátt annað rætt þar í landi. Áhugamenn um bresk stjórnmál hér á landi fylgjast vafalítið grannt með þróun mála. Einn þeirra er Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Í tilefni dagsins deilir hann á Facebook-síðu sinni sögu af því þegar hann fylgdist með þingkosningunum í Bretlandi árið 1979 þegar Margaret Thatcher var fyrst kjörin forsætisráðherra landsins.

Einar var þá 23 ára gamall og við nám í Bretlandi. Hann hafði unnið sem blaðamaður á dagblaðinu Vísi. Í fórum sínum hafði hann því blaðamannaskírteini sem opnaði honum ýmsar dyr í kosningabaráttunni. Sagan fer hér á eftir í heild:

„Það eru kosningar í Bretlandi í dag. Fyrir okkur einlæga áhugamenn um bresk stjórnmál verður þetta spennandi dagur. Mig langar af þessu tilefni að deila með ykkur smá sögu af eigin upplifun af kosningunum 3. maí 1979 þegar Margrét Thatcher varð forsætisráðherra.

Ég var ungur þá; 23 ára og við nám í Bretlandi. Ég hafði unnið sem blaðamaður á gamla Vísi og var með í fórum mínum blaðamannsskírteini, undirritað af Þorsteini Pálssyni þáverandi ritstjóra. Þetta skírteini opnaði mér margs konar leiðir, svo sem eins og á blaðamannafundi og alls konar uppákomur stjórnmálaflokkanna.

En eftirminnilegast var fyrir mig, strákling með skírteini frá allsendis óþekktu blaði ofan af Íslandi, að mæta inn á skrifstofur Íhaldsflokksins við Smith square í Lundúnum daginn eftir kjördag (en við sama torg voru líka höfuðstöðvar Verkamannaflokksins). Þarna stóð ég í miðjum hópi allra helstu blaðamanna Bretlands, þekktra andlita úr sjónvarpinu og heimskunnra fréttahauka víða að.

Ég hafði vit á að stilla mér upp framarlega í röðinni í stórri forstofu á jarðhæðinni og allir biðu frú Thatcher, nýja forsætisráðherrans. Það leið nokkur tími. Skyndilega var hurðinni svipt upp. Frú Thatcher birtist í fylgd sinna helstu ráðgjafa og tók strikið upp stóran stiga áleiðis upp á næstu hæð. Fréttahaukarnir kölluðu til hennar hver í kapp við annan – fréttamaðurinn frá Vísi sagði fátt, þó hann væri í góðu kallfæri við nýja forsætisráðherrann – og Thatcher brást í engu við spurningunum sem á henni dundu.

En svo kom það. Stórstjarna úr sjónvarpsfréttum náði athygli hennar. Hann kallaði sterkum rómi: „Mrs Thatcher, how does it feel to be a prime minister“ (Frú Thatcher, hvernig er það að vera orðin forsætisráðerra). Svona spurningu gat járnfrúin ekki látið ósvarað. Hún stoppaði í miðjum tröppunum, leit yfir hópinn og það birtust smálegar brosviprur í andlitinu þegar hún sagði: Tremendous, tremendous (stórkostlegt, stórkostlegt) og gekk svo sína leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert