Nýtt stöðu sína í pólitískum tilgangi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að sumir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hefðu gengið of langt og nýtt stöðu sína í pólitískum tilgangi.

„Að mínu mati hafa sumir gengið of langt í að nota stöðu sína sem trúnaðarmenn þessara félaga í pólitískum tilgangi, í baráttu við stjórnvöld á nýjum vígvelli. Það er sérstaklega slæmt við þetta að með því eru þeir hugsanlega að fórna hagsmunum umbjóðenda sinna ef þeir ganga of langt og verðbólgan fer á fullt,“ sagði forsætisráðherra.

Kjör fólks myndu rýrna þegar verðbólgan hækkar. „Það væri býsna dýr pólitísk aðgerð,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann sagði meðal annars að nú væri tækifæri, einstakt tækifæri, til að halda áfram að auka raunverulegan kaupmátt á Íslandi og bæta kjörin, sérstaklega hjá lægri- og millitekjuhópum.

Að mati Sigmundar Davíðs hafa sumir af forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar til að mynda rökstutt aðgerðir sínar með vísan til pólitíkur og óánægju með pólitíska stefnu. Þetta ætti þó alls ekki við um alla. Það væri mikill munur á verkalýðsforingjunum. 

„Við hittum marga þeirra reglulega og ég veit að margir hafa verulegar áhyggjur af þeirri stöðu sem er komin upp. Þeir vita að það mun bitna á þeirra skjólstæðingum, ef þetta endar svona.“

Frétt mbl.is: Jákvæðni átt undir högg að sækja

mbl.is