Neita sök í hópnauðgunarmáli

Fjórir af fimm mönnum sem eru sakaðir um hópnauðgun neituðu sök þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi í dag. Fimmti maðurinn er staddur erlendis, en hann hyggst einnig neita sök þegar hann mun mæta fyrir dómara.

Þetta staðfestir Sveinn Andri Sveinsson, verjandi eins sakborninga, í samtali við mbl.is. 

Ríkissaksóknari gaf nýverið út ákæru á hendur mönnunum sem eru aldrinum 18 til 20 ára, en þeim er gefið að sök að hafa nauðga 16 ára gamalli stúlku í samkvæmi í Breiðholti í maí á síðasta ári. 

„Fjórir af sakborningunum voru mættir við þingfestinguna og neituðu allir sök,“ segir Sveinn Andri. Fimmti maðurinn býr erlendis, en verjandi hans gerði grein fyrir því að hann myndi einnig neita sök í málinu þegar kæmi að aðalmeðferð málsins. 

Verjendur hafa fengið frest fram á haust til að skila inn greinargerðum. Búast má við að aðalmeðferð málsins hefjist í fyrsta lagi í september. Þinghaldið er lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert