Snýst um að senda skömmina burt

„Okkur finnst fáránlegt að samfélagið geti bannað okkur að vera berar að ofan. Þetta er okkar leið til að taka aftur okkar líkama og eigna okkur hann,“ segir Steinunn Ólína Hafliðadóttir í samtali við mbl.is en hún er ein þeirra sem tekur þátt í Free The Nipple viðburðinum á Austurvelli í dag.

Steinunn er á Austurvelli ásamt þeim Vigdísi Lilju, Silfrúnu Unu Guðlaugsdóttur, Góu Briem og Hinriki Steindórssyni. Þau tóku öll þátt í Free The Nipple byltingunni sem fram fór í mars fyrr á þessu ári þar sem konur og stúlkur „frelsuðu geirvörtuna“. Þau eru sammála um það að sú bylting hafi leitt til aukinnar og opnari umræðu í samfélaginu.

„Með Free The Nipple byltingunni kemur  upp breyting þar sem umræðan er opnari. Fólk er opnara með að ræða t.d. kynferðisafbrot og allt slíkt. Free The Nipple hefur líka sagt að umræðan sé leyfð sem er ótrúlega gott og jákvætt stökk,“ segir Góa.  „Fyrir tíu árum hefði ekki verið hægt að koma með svona,“ bætir Steinunn við. „Þetta snýst líka bara um að senda skömmina burt,“ segir Góa.

Aðspurð hvort þau sjái fyrir sér að framtíðinni geti konur verið berar að ofan óáreittar svara þau því játandi. „Konur fengu alveg að vera berar að ofan áður fyrr. Klámvæðingin er búin að búa þetta til, að konur megi ekki vera berar að ofan,“ segir Silfrún. „Það eru til myndir af stelpum í unglingavinnunni berar að ofan frá því í gamla daga, þetta var alveg í lagi og viðurkennt og þarf að verða það aftur.“

Löngu búnar að ákveða að mæta

Ragna Sigurðardóttir og  Stella Rún Guðmundsdóttir voru nýmættar á Austurvöll þegar blaðamaður ræddi við þær. Vinkonurnar voru löngu búnar að ákveða að mæta á Austurvöll í dag og sýna baráttunni stuðning. „Ég var farin að hlakka mikið til að koma og taka þátt,“ segir Stella.

Þær tóku báðar þátt í byltingunni á Twitter í mars. Þær eru sammála um það að margt hafi breyst síðan. „Já ég held að umræðan hafi breyst í kjölfarið. Ég hef tekið eftir pistlum og færslum, sérstaklega frá fólki sem skildi ekki tilfanginn fyrst en snerist hugur eftir að hafa kynnt sér rökin,“ segir Ragna.

Stella tekur í sama streng. „Ákveðin vitundarvakning hefur átt sér stað og fólk er opnara fyrir því að heyra rökin. Við fæðumst ekki með blygðunarkenndina, samfélagið  innrætir þetta í okkur og lætur okkur klámvæða og kyngera ákveðin hlut af líkömum kvenna sem ekki er gert hjá körlum.“

Þegar Stella og Ragna eru spurðar hvort þær sjái fyrir sér að konur geti í framtíðinni spókað sig um berar að ofan á sumardögum án áreitis og athygli svara þær því játandi. „Já ég vona það,“ segir Ragna. „Helsta ástæðan fyrir því að við erum hérna í dag er til þess að sýna að þetta eigi að vera eðlilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert