Fær aftur sömu stöðu og Noregur

AFP

Tekin hefur verið ákvörðun af ráðherraráði Evrópusambandsins um að Íslandi verði ekki lengur boðið að taka afstöðu með sameiginlegri stefnu sambandsins í öryggis- og varnarmálum sem umsóknarríki. Sú ákvörðun er liður í því að taka Ísland af lista Evrópusambandsins yfir umsóknarríki að sambandinu í samræmi við óskir ríkisstjórnarinnar. Þetta staðfestir Klemens Ólafur Þrastarson, upplýsingafulltrúi sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi, í samtali við mbl.is.

Þessi breyting felur í sér að Ísland hefur ekki lengur sömu stöðu og umsóknarríki að Evrópusambandinu í þessum efnum eins og landið hafði haft frá árinu 2010 þegar viðræður um inngöngu þess í sambandið hófust. Héðan í frá verði Íslandi einungis boðið að taka þátt í yfirlýsingum Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum með sama hætti og Noregur og Liechtenstein sem ásamt Íslandi eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) en utan sambandsins.

Ríkisstjórnin tilkynnti Evrópusambandinu formlega um miðjan mars á þessu ári að hún teldi Ísland ekki lengur vera umsóknarríki að sambandinu. Var óskað eftir því við Evrópusambandið að tekið yrði mið af því í störfum sambandsins. Evrópusambandið ákvað í kjölfarið að fjarlægja Ísland af listum yfir umsóknarríki að sambandinu á vefsíðum sínum. Einnig ákvað Evrópusambandið að hætta að bjóða fulltrúum Íslands á þá fundi sem umsóknarríkin hafa annars rétt til að sækja.

mbl.is