Hótað „óþægilegri fjölmiðlaumfjöllun“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í fjárkúgunarbréfinu sem sent var á heimili forsætisráðherra kom fram að fylgst væri með honum og heimili hans. „Það var ekki þægilegt,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í viðtali við DV. 

Sigmundur segist ekki muna orðrétt hvað staðið hafi í bréfinu. Lögreglan hafi tekið það og segist hann ekki eiga eintak af því. „Þarna stóð eitthvað tiltölulega óljóst um það að upplýsingar sem tengdust fjölmiðlamálum myndu koma sér mjög illa fyrir mig og því hótað að ef ég hefði samband við lögreglu yrði búin til óþægileg fjölmiðlaumfjöllun,“ segir Sigmundur í viðtalinu við DV.

Sigmundur neitar því að hafa komið nálægt fjármögnun Pressunar eða DV. „Eins og ég hef lýst ítrekað yfir og segi enn og aftur þá veit ég ekkert um það með hvaða hætti eigendaskiptin á DV báru að og ég veit ekkert meira um eignarhald á Vefpressunni og þau viðskipti öll en komið hefur fram í fjölmiðlum.“

Hann segir ýmsar sögur hafa verið í gangi um aðkomu sína eða Framsóknarflokksins að þessum fjölmiðlum, „og það virðist sem sumir fyrrverandi eigendur DV hafi kennt Framsóknarflokknum um það að þeir misstu yfirráðin á blaðinu og gremjist það mjög.“

Spurður um hvernig honum hafi orðið við er fjárkúgunarbréfið barst svarar hann: 

„Það var ekki þægilegt. Það var sérstaklega tekið fram að verið væri að fylgjast með mér eða heimilinu og þótt ég hafi lent í ýmsu í þessu starfi er ég ekki vanur að sjá slíkt. Ráðherrar eru hvattir til að láta vita ef eitthvað þessu líkt gerist og við hjónin gerðum það strax. [...] Þarna var verið að blanda fjölskyldu minni inn í málið. Stjórnmálamenn eru, þrátt fyrir allt, ýmsu vanir og ég get ímyndað mér að það sé verra að vera maki stjórnmálamanns heldur en að vera stjórnmálamaðurinn sjálfur. Þá er ég að tala almennt, ekki bara um þetta bréf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert