„Þetta er auðvitað útópískt rugl“

Hlín Einarsdóttir og Malín Brand í Héraðsdómi Reykjavíkur í vor.
Hlín Einarsdóttir og Malín Brand í Héraðsdómi Reykjavíkur í vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er harmleikur tveggja systra og viðkvæmra sála,“ sagði Björn Þorri Viktorsson, verjandi Malínar Brand, fyrir Hæstarétti í morgun. Malín áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í apríl. Malín var þá dæmd í í 12 mánaða fang­elsi, þar af 9 mánuði skil­orðsbundna, fyr­ir fjár­kúg­un.

Bæði Malín og syst­ir henn­ar, Hlín Ein­ar­sótt­ir, voru ákærðar og dæmd­ar í mál­inu. Voru þær fundn­ar sek­ar um að hafa kúgað 700 þúsund krón­ur út úr karl­manni sem þær hótuðu að kæra fyr­ir nauðgun. Þá voru þær einnig fundn­ar sek­ar um til­raun til fjár­kúg­un­ar gegn Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra.

Saksóknari lýsti atburðum en meint nauðgun átti sér stað á heimili mannsins að kvöldi skírdags fyrir tveimur árum síðan. Í framhaldi af því hafði ákærða Malín samband við manninn á mánudeginum, annan í páskum, þar sem bornar voru á hann sakir um að eitthvað hefði ekki verið í lagi í kynferðislegum samskiptum hans og systur hennar.

Þau þrjú hittast fyrir utan líkamsræktarstöð þá um kvöldið og ber öllum saman um að Hlín hafi þá verið í miklu uppnámi. Að kvöldi miðvikudagsins fer Hlín á neyðarmóttökuna og saksóknari bendir á að í framhaldinu hafi þær rætt um hversu háar bætur í kynferðisbrotamálum séu og slæma fjárhagsstöðu sína.

Maðurinn greiðir svokallaðar sáttabætur en systurnar sögðust vera komnar með réttargæslumann og væru tilbúnar að fara með málið til lögreglu. Hann greiðir hálfa milljón í reiðufé á föstudegi og lýkur greiðslu næsta mánudag.

Sveinn Andri Sveinsson réttargæslumaður og Daði Kristjánsson saksóknari í Hæstarétti …
Sveinn Andri Sveinsson réttargæslumaður og Daði Kristjánsson saksóknari í Hæstarétti í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Sagði Malín ekki hafa hótað manninum

„Ákærða Malín gat ekki haldið annað en að upplýsingar um það sem gerðist heima hjá manninum væru réttar,“ sagði Björn Þorri. Hann vildi meina að Malín hefði allt eftir systur sinni í málinu og gæti því ekki annað en lagt til grundallar hennar upplifun.

„Það er enginn ásetningur af hálfu ákærðu Malínar að koma fram röngum sakburði,“ sagði Björn Þorri.

Hann segir að Malín hafi ekki hótað manninum vegna sáttagreiðslunnar svokölluðu. Samkomulag hafi náðst um greiðslu og ef Malín tjáði manninum að réttargæslumaður væri kominn í málið hafði hún það frá systur sinni.

Malín vildi ljúka málinu fljótt

Hann sagði það hafa verið vilja Malínar að ljúka málinu fljótt og örugglega enda væri þarna um að ræða systur hennar annars vegar og hins vegar góðan kunningja til tíu ára.

Verjandinn vísaði til mats geðlæknis þar sem fram kom að samkvæmt upplifun Hlínar átti kynferðisbrot sér stað. „Hvernig gat þá Malín, sem hafði allar upplýsingar frá Hlín, haldið annað?“ sagði Björn Þorri og bætti við að manninum hefði verið mikið í mun að ljúka málinu með sátt og greiðslu.

Hann sagði Malín áður hafa lýst sambandi og samskiptum sytranna en báðir foreldrar þeirra eru látnir og Malín hefur sagt að fyrir utan son sinn sé Hlín það eina sem hún á. Malín hafi greint frá því að oft sé erfitt að eiga samskipti við Hlín, sem springi og loki á hana.

Vildi ekki styggja eða missa Hlín

Hvað varðaði aðild hennar að fjárkúgun gagnvart Sigmundi Davíð segir Björn Þorri að aðild Malínar sé eingöngu í formi hlutdeildar, ekki samverknaður eins og héraðsdómur komst að. „Hún hefur lýst því yfir að henni hafi þótt þessi áætlun algjörlega fráleit frá upphafi. Þetta er auðvitað útópískt rugl sem þarna átti sér stað. Það er einhver meðvirkni af hálfu ákærðu þarna en hún vill ekki styggja eða missa Hlín,“ sagði Björn Þorri.

Saksóknari krefst þess að dómur héraðsdóms verði staðfestur auk þess að ákærða greiði áfrýjunarkostnað. Hann segir í þeim hluta málsins sem snúi að fjárkúgun gagnvart fyrrverandi vinnufélaga Hlínar sé ljóst að hann hafi verið blekktur og settur undir mikla pressu.

Handskrifaði bréf til konu forsætisráðherra

Honum var talin trú um að Hlín væri með sterkt mál  í höndunum og best væri að borga til að komast hjá kæru. Saksóknari telur enn fremur ljóst að Malín hafi verið samverkamaður í seinni hlutanum; tilraun til fjárkúgun gegn Sigmundi Davíð.

Hann segir Malín hafa verið samverkamaður með systur sinni í því máli, meðal annars handskrifað hótunarbréf sem stílað var á konu forsætisráðherra. Hún sé síðan með Hlín í hrauninu, þegar þær voru handteknar, þar sem þær ætluðu að taka á móti hárri fjárhæð.

Sveinn Andri Sveinsson, réttargæslumaður mannsins, krefst þess að ákærðu verði gert að dæma honum 1,7 milljónir króna ásamt vöxtum og dráttarvöxtum en til vara að dómur héraðsdóms verði staðfestur en þar var Hlín og Malín gert að greiða manninum 1,3 milljónir í miskabætur.

Sveinn sagði að maðurinn hefði lýst því að hann hafi brotnað niður við málið og fundist líf sitt gjörsamlega búið. Hann fjallaði um það fyrir héraðsdómi og sagði þetta hvíla þungt á sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert