María Ögn og Elvar Örn sigurvegarar

Elvar Örn Reynisson kemur í mark
Elvar Örn Reynisson kemur í mark

María Ögn Guðmundsdóttir og Elvar Örn Reynisson fóru með sigur af hólmi í hjólreiðakeppninni Kia Gullhringurinn sem haldin var í gær.

Kia Gullhringurinn var haldinn í fjórða sinn á Laugarvatni í gær en um 700 keppendur tóku þátt í keppninni. Þetta er langmesti fjöldi sem tekið hefur þátt í keppninni þau fjögur ár sem hún hefur farið fram. Hjólað var frá Laugarvatni að Gullfossi og Geysi, beygt inn á Biskupstungnabraut og hún hjóluð alla leið að Þingvallaafleggjaranum í Grímsnesi. Þaðan var hjólað að og yfir Lyngdalsheiði og inn á Laugarvatn aftur, samtals um 106 kílómetrar. Allir keppendur komust heilir í mark þrátt fyrir nokkrar minniháttar skrámur, segir í tilkynningu.

María Ögn, sem er Íslandsmeistari og hjólreiðakona ársins 2014, er ósigruð í Kia Gullhringnum en hún hefur unnið öll fjögur árin sem hún hefur verið haldin. María sló eigið brautarmet frá árinu 2013 en þá hjólaði hún Gullhringinn á 2:59:27 en nýtt brautarmet hennar í ár er 2:59:08. Elvar Örn Reynisson kom fyrstur í mark í karlaflokki á 2:50:44 sem er um mínútu frá fyrra brautarmeti. Þetta er fyrsti sigur Elvars í A-flokki keppninnar.

María Ögn Guðmundsdóttir
María Ögn Guðmundsdóttir mbl.is/Árni Sæberg
Hjólreiðakeppninn Kia Gullhringurinn
Hjólreiðakeppninn Kia Gullhringurinn
Hjólreiðakeppninn Kia Gullhringurinn
Hjólreiðakeppninn Kia Gullhringurinn
mbl.is