Reglur um rútur í miðbænum í vikunni

Lengi hefur verið rætt um að loka ákveðnum götum fyrir …
Lengi hefur verið rætt um að loka ákveðnum götum fyrir rútuumferð, en aukinn ferðamannastraumur kallar á aukna flutninga. Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, mun funda með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á mánudaginn og í framhaldinu má vænta niðurstöðu varðandi reglur um hvar stórar rútur megi leggja í miðborginni. Í samtali við mbl.is segir Dagur að um leið og reglurnar verði kynntar  verði sagt frá skipulagi með sleppistæði í útjaðri bannsvæða, en þar geta stórar rútur sett út og sótt farþega.

Í þeim tillögum sem nú liggja fyrir á að banna öll ökutæki sem eru lengri en 8 metra innan svæðis sem afmarkast af Barónsstíg, Eiríksgötu, Njarðargötu, Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi, Lækjargötu og Hverfisgötu. Undanþegnar banni verði slökkvibifreiðar,  sorphreinsibifreiðar og þjónustubifreiðar á vegum Reykjavíkurborgar.  

Dagur segir að reglur um akstur í borginni séu háðar samþykki lögreglustjórans, en vonandi muni mál skýrast strax á mánudaginn. Segir hann að línur verði væntanlega komnar á hreint í málinu í vikunni, en samkvæmt Degi hefur samræða átt sér stað milli fulltrúa borgarinnar, Samtaka ferðaþjónustunnar og rútufyrirtækja.

Segir hann að með nýjum reglum verði bæði horft til hagsmuna borgarbúa og ferðaþjónustufyrirtækja. „Það verða skilgreind hvar ný sleppistæði verða og hvar má ekki brölta með of stóra bíla,“ segir Dagur og bætir við að mikilvægt sé að aukin ferðaþjónusta verði borginni til góðs þannig að allir getið búið í sátt saman í borginni.

„Það eru allir sammála um að skýrar reglur eru það sem þarf,“ segir Dagur, en hann bendir á að mörg hótel hafi verið með mjög stífar kröfur um hvar sækja eigi farþega og það hafi gert rútufyrirtækjunum erfitt fyrir. Segir hann skýrar reglur því vera nauðsynlegar í þessu samhengi þannig að bæði hótelin og rútufyrirtækin viti að hverju þau geti gengið.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Baldur Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert