Ferðamenn ættu að forðast Reykjavík

Í greininni eru taldir upp ellefu vinsælir ferðamannastaðir sem ferðamenn …
Í greininni eru taldir upp ellefu vinsælir ferðamannastaðir sem ferðamenn ættu að forðast í sumar. Skjáskot/Culture Trip

Ferðavefurinn The Culture Trip setur Reykjavík á lista yfir ferðamannastaði sem ætti að forðast í sumar. Á listanum er einnig að finna borgir á borð við Feneyjar, Róm, Mílanó og Barcelona. Höfundur greinarinnar segir að á undanförnum vikum hafi heimamenn víða um Evrópu fengið sig fullsadda af ferðamönnum og öllu því sem þeim fylgi. Þeir kvarti yfir að ofgnótt ferðamanna hækki húsnæðisverð, fylli göturnar og að tekjur af þeim fari í vasa útvalinna.

Í þeim hluta greinarinnar þar sem fjallað er um Reykjavík segir að ferðamenn á Íslandi hafi orðið uppvísir að því að kúka á víðavangi og veiða lamb til að grilla það. Sagt er frá því að sprenging hafi orðið í komum ferðamanna til landsins frá árinu 2008 í kjölfar bankahrunsins sem hafði veruleg áhrif á efnahag landsins. Hins vegar séu félagsleg og umhverfisleg áhrif ferðaþjónustunnar nú farin að vefjast fyrir Reykvíkingum.

Ferðasíðan Culture Trip er vinsæll viðkomustaður þeirra sem áhuga hafa á ferðalögum. Í hverjum mánuði heimsækja um 7,5 milljónir notenda síðuna og er hún með um 3 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina