Viljandi smit þekkist víða

Besta forvörnin er að hafa öryggið á oddinum.
Besta forvörnin er að hafa öryggið á oddinum. mbl.is/Sigurgeir

Fjölmargir hafa í dag velt vöngum yfir því hvaða dóm menn sem smiti fólk af HIV veirunni hljóti. Eins og komið hefur fram í fréttum er karlmaður er erlendu bergi brotinn grunaður um að hafa smitað konur af HIV veirunni og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í dag. 

Ekki hefur verið greint frá því hvort maðurinn hafi vitað af smiti sínu. Samkvæmt fjórðu málsgrein 220. greinar almennra hegningarlaga varðar það allt að fjögurra ára fangelsi að stofna lífi eða heilsu annarra í augljósan háska, hvort sem er í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt. Sú grein gæti því átt við komi í ljós að maðurinn hafi vísvitandi stefnt heilsu kvennanna í hættu.

Þó slík mál séu ný af nálinni hér þekkjast þau í öðrum löndum. 

Frá Nýja Sjálands til Noregs

Árið 2009 játaði 35 ára karlmaður frá Nýja Sjálandi að hafa viljandi smitað eiginkonu sína af HIV á meðan hún svaf. Það gerði hann til að fá hana til að stunda kynlíf með sér á nýjan leik. Hann greindist með HIV árið 2004 og konan vildi ekki stunda kynlíf með honum aftur en vildi heldur ekki skilja við hann, barnanna vegna. Maðurinn var dæmdur í átta ára og fjögurra mánaða fangelsi.

Í ágúst 2010 hlaut Nadja Benaissa, söngkona úr þýsku stúlknasveitinni No Angels, tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir að smita fyrrverandi kærasta sinn af HIV. Einnig stundaði hún óvarin mök með tveimur öðrum mönnum sem sluppu við smit. Benaissa viðurkenndi fyrir dómi að hafa ekki upplýst mennina um að hún væri smituð. Hún sagðist sjá eftir öllu saman og að það hafi ekki verið vilji hennar að smita aðra. 

Árið 2009 gaf ríkissaksóknari í Noregi út ákæru á hendur manni um fertugt. Hann smitaði eiginkonu sína og dóttur af HIV. Hann smitaði eiginkonu sína árið 2007 með því að stunda með henni óvarið kynlíf án þess að segja henni að hann væri smitaður. Dóttirin hlaut smit þegar hún þurrkaði upp blóð eftir föður sinn eftir að til slagsmála kom á milli foreldranna. Samkvæmt skýrslu sem stofnunin HivNorege gerði við árslok 2008 hafa tólf mál ratað til dómstóla síðan um aldamót þar sem fólk smitar aðra af HIV-veirunni visvítandi. Samkvæmt skýrslunni féll fangelsisdómur í öllum málunum. 

Árið 2008 lagði sænska smitsjúkdómastofnunin það til að fólk sem smitar aðra vísvitandi af HIV-veirunni væri ekki titluð sem glæpamenn. Það telst vera gróf lík­ams­árás sam­kvæmt sænsk­um lög­um að stunda kyn­líf án verju án þess að til­kynna ból­fé­lag­an­um um hiv-smit og get­ur refs­ing­in numið margra ára fang­elsi. Þeim lög­um vill stofn­un­in breyta.

Myrt fyrir að smita

Eins eru til dæmi um að fólk hafi tekið lögin í sínar hendur vegna smits.

Larry Dunn, karlmaður á fertugsaldri frá Dallas í Bandaríkjunum, hélt framhjá konu sinni árið 2012 með konu að nafni Cicely Lee Bolden. Þegar Dunn komst að því að Bolden hafði smitað hann af HIV fannst honum sem Bolden hefði myrt hann. Stundaði hann því óvarið kynlíf með Bolden í eitt síðasta skipti og stakk hana síðan með steikarhníf í hálsinn. „Í huga mínum er ég dáinn, þannig að ég drap hana,“ sagði Dunn.  Hann var dæmdur í 40 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert