Lögðu til meiri sveigjanleika

Afglæpavæðing vændis er afar umdeild leið til að vernda kynlífsstarfsmenn.
Afglæpavæðing vændis er afar umdeild leið til að vernda kynlífsstarfsmenn. mbl.is/Árni Torfason

Einhver fjöldi fólks hefur gengið úr félagsskap Íslandsdeildar Amnesty International eftir að fregnir bárust af því að heimsþing samtakanna hefði samþykkt tillögu um afglæpavæðingu vændis. Félagar hafa verið tæplega 9.000 talsins en stjórn deildarinnar hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort nákvæmur fjöldi úrsagna verður gefinn upp.

Íslandsdeildin sat hjá í atkvæðagreiðslu um málið á heimsþinginu þar sem hún taldi sig ekki geta tekið afstöðu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Spurð að því hvort draga megi þá ályktun að deildin sé á móti því að taka afstöðu með afglæpavæðingu á meðan frekari gögn liggja ekki fyrir svarar Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri játandi.

„[Viðbrögðin] hafa verið á þeim nótum sem við bjuggumst við. Við höfðum heyrt frá félögum áður en við fórum á þingið, þar sem félagar höfðu haft einhverja vitneskju um hvað lá fyrir, og ég held að ég geti sagt að þetta sé í samræmi við það,“ segir Anna um viðbrögð íslenskra félaga við niðurstöðu heimsþingsins.

Hún segir að borið hafi á því að fólk hafi sett sig í samband í kjölfar þingsins til að deila skoðun sinni á málinu.

Breytingartillaga um sveigjanleika fékk ekki hljómgrunn

Á heimsþinginu lagði Íslandsdeildin fram breytingartillögu í samvinnu við aðrar deildir, en sú tillaga hlaut ekki brautargengi og verður því ekki lögð fyrir framkvæmdastjórn Amnesty.

En hvað fólst í breytingartillögunni?

„[Tillagan] fólst í því að þá var ekki verið að leggja til afglæpavæðingu að öllu leiti, heldur að það væri meiri sveigjanleiki þar sem hægt væri að skoða fleiri leiðir til að koma í veg fyrir brot á fólki sem er í vændi,“ svarar Anna.

Munu viðbrögðin hér heima hafa áhrif á starfsemi deildarinnar og fjárhag?

„Það segir sig kannski sjálft að þegar félagar draga sig úr félagi þá auðvitað, ef það er stór hópur, getur það haft einhver áhrif. En við vonum auðvitað að það komi ekki til, enda viljum við vinna áfram að mannréttindum fólks í heiminum og við gefum engan afslátt þar. Þannig að við munum að sjálfsögðu halda áfram okkar starfi eins og það hefur verið í gegnum tíðina og vonum að þessi niðurstaða komi ekki niður á öðrum málum Amnesty.“

Voru bundin trúnaði

Anna segir erfitt að gera sér grein fyrir því hvort niðurstaða þingsins hafi komið fólki að óvörum, en það vekur athygli að engar opinberar umræður fóru fram meðal félaga í aðdraganda heimsþingsins.

„Við vorum bundin trúnaði,“ útskýrir Anna. „Þetta voru vinnuplögg sem við fengum í hendur og við vorum bundin trúnaði. Við fengum alveg skýr fyrirmæli frá alþjóðasamtökunum. Þannig að við gátum lítið gert varðandi að kynna þetta sérstaklega til félaga eða slíkt.“

Spurð að því hvers vegna trúnaðir hafi ríkt um tillöguna ítrekar Anna að um vinnuplögg hafi verið að ræða, sem taki jafnan miklum breytingum áður en til atkvæðagreiðslu kemur. Hún segir þetta í takt við aðra umfjöllun innan Amnesty International um stefnumál samtakanna.

Þar sem málið er afar umdeilt er eðilegt að velta því fyrir sér hvort tillagan, og þar af leiðandi stefnumörkun samtakanna, byggi á umræðum meðal félaga, til viðbótar við rannsóknir og skýrslur.

Þessu svarar Anna þannig:

„Það má náttúrlega benda á að stjórnir deildanna eru lýðræðislega kosnir fulltrúar á aðalfundi og að þeim sé treyst til að meta þau gögn sem liggja fyrir og taka þá afstöðu sem þeir telja að sé því fólki sem um ræðir fyrir bestu. Það er verið að hugsa um hagsmuni þeirra sem eru í vændisiðnaði í þessu tilviki og þetta er fólk sem er treyst til þessara starfa.“

Frétt mbl.is: Verður afglæpavæðing fyrir valinu?

Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.
Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is