„Ég ætla ekki að nefna einhverja tölu“

Bjarni segir ástandið grafalvarlegt.
Bjarni segir ástandið grafalvarlegt. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að við verðum að byrja á því að spyrja okkur í víðara samhengi hvað við getum gert til að aðstoða flóttafólk í neyð. Það sé ekki rétt að byrja umræðuna á því að ákveða hversu marga flóttamenn við getum tekið til okkar.

Í fyrsta lagi er þetta grafalvarlegt ástand sem er komið upp og af stærðargráðu sem við höfum ekki áður séð. Vandinn er að sjálfsögðu mestur hjá þeim ríkjum sem er á jaðri átakasvæðanna. Öll Evrópa þarf að spyrja sig hvað er til ráða og þar á meðal við Íslendingar,“ segir Bjarni við mbl.is.

Kann að standa í mörg ár

Hann segir ljóst að aðstoð okkar muni felast í því að taka á móti flóttamönnum. „Við þurfum að meta það í ljósi þeirrar miklu neyðar sem er uppi hvað við getum gert og þær stofnanir og þau ráðuneyti sem eru að vinna í þeim málaflokkum þurfa að koma strax að þeim málum. Ég ætla ekki að byrja á því að ákveða einhverja tölu út í loftið.

Bjarni segir að Íslendingar þurfi, ásamt öðrum Evrópuríkjum, að axla ábyrgð á neyðinni sem komin er upp. „Eitt af því sem þarf að hafa í huga í því samhengi er að þessi straumur flóttamanna hann kann að standa lengi, jafnvel í mörg ár. Hann verður ekki leystur með því að komast að niðurstöðu um eina tölu eftir helgi. Ég ætla ekki að nefna einhverja tölu. Við þurfum að hugsa þetta í víðara samhengi heldur en það. Aðalatriðið er að menn geri sér grein fyrir því í hversu hræðilegri stöðu þetta fólk og þessar fjölskyldur eru. Við tökum það alvarlega og spyrjum okkur núna hvað getum við gert til þess að taka þátt í lausn vandans.“

Kallar eftir fundi í allsherjarnefnd

Í dag kallaði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG í allsherjarnefnd, eftir fundi í nefndinni. Hún sagði að: „Í ljósi ástandsins og umræðu um flóttamenn og aðstoð við þá myndi ég telja fulla ástæðu til þess að allsherjarnefnd fundi og fari yfir lög og aðra umgjörð í kringum slíkt.

Þar sem mörg sveitarfélög hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í verkefni ríkisstjórnarinnar er ekki úr vegi að skoða hvort hægt sé að taka á móti fleirum en 50 manns enda í sjálfu sér skammarlega lítið.“

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, sagði í samtali við mbl.is að þverpólitísk þingmannanefnd hefði þegar lagt fram breytingar á útlendingalögum eftir margra ára vinnu. Stjórnvöld hafi því unnið að því lengi að endurskoða lögin.

Hún segist vilja fara yfir málið í rólegheitum. „Mér finnst eðlilegt að setjast yfir þetta og kanna hvaða möguleikar eru til að taka á móti flóttamönnum, en það ræðst af hvaða þjónustu er mögulegt að veita á næstu árum. Ég tel að það sé hægt að taka á móti fleiri flóttamönnum. Auðvitað eigum við að gera allt sem við getum,“ segir Unnur Brá.

Þá skoraði Björt framtíð á stjórnvöld að endurskoða tafarlaust fyrirætlaðar aðgerðir varðandi móttöku flóttafólks og auka fjölda þeirra sem hingað koma til mikilla muna.

„Neyðarástand það sem blasir við vaxandi fjölda flóttafólks sem leitar til Evrópu að alþjóðlegri vernd, kallar á róttæk og snör viðbrögð. Börn, konur og karlar standa frammi fyrir gríðarlegum hörmungum og sífellt berast fréttir af dauðsföllum sökum ástandsins,“ segir í áskorun Bjartrar Framtíðar.

Ísland getur boðið mun fleira flóttafólk velkomið og okkur ber siðferðileg skylda til að leggja okkar af mörkum. Við eigum jafnframt að bregðast við með því að bjóða mun meiri aðstoð á svæðum þar sem hörmungarnar eiga sér stað, á hvern þann hátt sem við best getum. Sýnum í verki að við viljum standa vörð um mannréttindi og réttindi fólks til öruggs lífs!“ segir þar ennfremur.

mbl.is