Heilbrigðismálin í fyrsta sæti hjá öllum hópum

Landsmönnum vilja forgangsraða til heilbrigðismála, óháð aldri, menntun, efnahag, búsetu, …
Landsmönnum vilja forgangsraða til heilbrigðismála, óháð aldri, menntun, efnahag, búsetu, kyni og hvaða flokk fólk kýs. mbl.is/ Árni Sæberg

Yfir 90% landsmanna vilja enn að Alþingi forgangsraði fjármunum til heilbrigðismála. Þetta kemur skýrt fram í skoðanakönnun sem Capcent Gallup gerði fyrir Pírata rétt fyrir þingsetningu. Heilbrigðismál eru í afgerandi forgangi hjá landsmönnum óháð aldri, menntun, efnahag, búsetu, kyni og hvaða flokk fólk kýs.

Í tilkynningu frá Pírötum kemur fram að þrátt fyrir mikinn niðurskurð, lág laun, lélegan aðbúnað og mikið vaktaálag í gegnum kreppuna þá hafi heilbrigðistarfsfólkið haldið öllum þáttum heilbrigðisþjónustunnar grænum samkvæmt alþjóðlegum þjónustustuðlinum „Euro Health Consumer Index 2013“ sem landlæknir styðst við samkvæmt lögum og reglum.

Þá segir að heilbrigðisstarfsfólk sé réttilega langþreytt, eins og fyrsta læknaverkfall íslandssögunnar í vetur sýnir. Landlæknir áréttaði fyrir stjórnvöldum á árinu að lög á verkföll heilbrigðisstarfsmanna væri ekki langtímalausn, og benti á að aðrar leiðir væru færar til að koma í veg fyrir verkföllin. Nauðsynlegur þáttur langtímalausnar er að Alþingi fari að vilja 90% landsmanna og forgangsraði fjármunum með afgerandi hætti í fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, segir jafnframt í tilkynningunni.

Könnunin var gerð 20. ágúst til 11. september á þessu ári, en sambærileg könnun var gerð í nóvember árið 2014. Úrtakið núna var 4140 manns, en 2421 svöruðu. Í fyrra voru 2900 í úrtaki og svöruðu 1775 þeirra.

Heilbrigðismál eru sem fyrr segir í efsta sæti, en málaflokkurinn fékk forgangseinkunina 91,0%, en það er sambærilegt við töluna í fyrra sem var 91,7%. Voru 75,6% aðspurðra sem settu málaflokkinn í fyrsta sæti.

Í næsta sæti voru mennta- og fræðslumál sem fengu forgangseinkunnina 50,4%, samanborið við 54,5% í fyrra. Almannatryggingar og velferðamál voru í þriðja sæti með 39,4% og fóru upp um 1,8 prósentustig milli ára. 

Málaflokkurinn húsnæðis-, skipulags- og hreinsunarmál var hástökkvari ársins og fór upp um tæplega 9 prósentustig í 29,2%. Með því fór flokkurinn upp um tvö sæti, en áður höfðu löggæsla og öryggismál og svo samgöngumál verið þar fyrir ofan.

Málaflokkarnir landbúnaðarmál, kirkjumál og önnur útgjöld ríkissjóðs leiða restina, landbúnaður fékk forgangseinkunnina 4,2%, meðan seinni tveir flokkarnir voru með 1,0 í einkunn. 

mbl.is