Byrjað að dæla inn sögum frá Íslandi

Merki Snapchat.
Merki Snapchat.

Í dag geta Íslendingar fengið útrás fyrir athyglissýkina og sent inn myndir eða stutt myndskeið inn á svokallað „Live Feed“ á Snapchat. Samfélagsmiðillinn vinsæli velur reglulega borgir eða lönd þaðan sem verður sent út „beint“ og í dag má til að mynda fylgjast með notendur Snapchat á Balí og þeim sem taka þátt í hátíðarhöldum í Mið-Ameríku. Markaðsfulltrúi hjá Nova telur ekki ólíklegt að hægt verði að horfa á „beinu útsendinguna“ strax í fyrramálið.

„Það er samt mjög erfitt að segja til um það. Maður veit ekki alveg hvernig þetta er gert nákvæmlega en þessu er öllu safnað saman og ritstýrt. Það tekur örugglega bara tíma að fara gegnum allt það efni sem fólk er að senda inn,“ segir Ragnar Trausti Ragnarsson, markaðsfulltrúi hjá Nova í samtali við mbl.is.

Hann segir Snapchat alveg gífurlega stóran samfélagsmiðli. „Það kom í ljós nýlega í könnun Gallup að Snapchat er annar stærsti samfélagsmiðillinn í dag á Íslandi þannig ég get trúað því að það sé mikill áhugi fyrir því að senda inn í dag, sérstaklega í aldurshópnum 18-35 ára.“

Talið er að um 100 milljónir manna noti Snapchat á degi hverjum en miðillinn kom til sögunnar í september 2011. Síðan þá hefur hann vaxið gífurlega hratt og eru um 400 milljón „snöpp“ send á degi hverjum.

Erfitt er að meta hversu margir notendur Snapchat muni skoða söguna frá Íslandi þegar hún birtist en allir þeir 100 milljónir notendur miðilsins geta skoðað hana. Ragnari Trausta finnst það líklegt að sagan verði birt í heild sinni á morgun. „Þeir hafa áður sýnt lönd og borgir frá morgni til kvölds, það er búa til hálfgerða sögu yfir heilan dag. Þannig sýna þeir fyrstu brotin frá morgninum, síðan um miðjan daginn og svo lýkur sögunni um kvöld. Mér finnst ekki ólíklegt að það verði gert þannig hjá okkur líka.“

Uppfært kl. 13:38

Byrjað er að birta myndbönd Íslendinga í „Beinu útsendingunni“. Þar má m.a. sjá kynningu á Hallgrímskirkju, sveitalífið og veðurlýsingar. Þar að auki eru Bessastaðir sýndir og kallaðir „Presidents palace“ eða „Forsetahöllin“.

Fyrri frétt mbl.is: Ísland í beinni á Snapchat

Með því að haka við
Með því að haka við "Our Iceland Story" ratar snappið mögulega í "Live feed" samfélagsmiðilsins. Skjáskot
Ef smellt er á myndina af Íslandi byrjar gleðin.
Ef smellt er á myndina af Íslandi byrjar gleðin. Skjáskot
Einhver sniðugur á Íslandi birti myndband sem sýnir Bessastaði og …
Einhver sniðugur á Íslandi birti myndband sem sýnir Bessastaði og Bessastaðakirkju. Er það einfaldlega kallað "Forsetahöllin" á Snapchat. Skjáskot
mbl.is