Telur Akureyringa vel í stakk búna

Eygló segir Akureyringa hafa dregið lærdóm af fyrri reynslu.
Eygló segir Akureyringa hafa dregið lærdóm af fyrri reynslu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fundaði í dag með fulltrúum Akureyrar um móttöku flóttamanna þar sem m.a. var farið yfir móttökuferlið. Ekkert liggur fyrir um fjölda né hvaða flóttamönnum bærinn mun taka á móti, en að sögn ráðherra hefur nú í fyrsta sinn verið opnað fyrir móttöku stórfjölskyldu.

„Þessi fundur var mjög góður. Við fórum yfir hver staðan er núna, samskipti okkar við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, tímaramman sem við erum að miða við og það sem við töldum að væri skynsamlegast að gera,“ segir Eygló. „Mér fannst þau hafa undirbúið sig mjög vel; þau hafa verið að læra af því sem þau hafa gert áður varðandi móttöku flóttamanna, og sýna bara mjög jákvæða afstöðu til þessa stóra verkefnis.“

Ráðuneytið hefur fengið þau svör frá Flóttamannastofnuninni að það muni taka stofnunina þrjár til fjórar vikur að senda þau gögn til Íslands sem beðið hefur verið um. Flóttamannanefnd mun fara yfir gögnin og færa ráðherra tillögur.

„Ég held að það væri mjög heppilegt ef við gætum unnið þetta að einhverju leiti í samráði við sveitarfélögin, þau líka átta sig þá betur á þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eru að koma og undirbúa sig þá betur,“ segir ráðherra.

Móttökur samfélagsins munu skipta mestu máli

Meðal þess sem rætt var á fundi með fulltrúum Akureyrar voru atriði er snúa að húsnæðismálum, skólamálum, atvinnumálum, íslenskukennslu og sálgæslu, svo eitthvað sé nefnt.

„En ég lagði líka áherslu á að það verða kannski ekki á endanum við í ráðuneytinu eða sveitarfélögin sem munu skipta mestu máli varðandi það að láta fólkinu líða sem best hér á landi, heldur samfélagið sjálft; hvernig það tekur á móti einstaklingunum. Nú eftir þennan fund er ég mjög bjartsýn að það muni ganga mjög vel á Akureyri,“ segir Eygló.

Hvað varðar fjölda og val á hópum segir hún að því hafi verið komið á framfæri að ekki væri óskað eftir einhverjum sérstökum hópum, heldur að horft yrði til blandaðs hóps. Þannig yrðu aðstæður fólksins eflaust fjölbreyttar og ólíkar.

„Það er kannski nýtt hjá okkur núna, og það er eitthvað sem við höfum lært af reynslunni, að við sem sagt opnum á það að horfa ekki bara á kjarnafjölskylduna, heldur að það verði þá stórfjölskylda sem getur komið.“

Spurð að því hvort fundir með fulltrúum annarra sveitarfélaga séu á bókunum, segir ráðherra að unnið sé að því.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert