Þegar búin að fara fram yfir

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki er hægt að taka út meiri launahækkanir en sem nemur framleiðsluaukningu nema að menn vilji verðbólgu og hærri vexti. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, þegar hann var spurður út í ítrekuð verkföll opinberra starfsmanna á þessu ári á Alþingi í dag. Nú þegar væri búið að fara umtalsvert fram yfir.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði ráðherrann í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi hvers vegna ítrekað hefði komið til verkfalla opinberra starfsmanna undanfarið og hvernig hann ætlaði að leysa úr kjaraviðræðunum. Kröfur félagsamanna SFR og sjúkraliða sem nú eru í verkfalli væru sanngjarnar.

Bjarni benti á að ef rúlla ætti mestu hækkunum í einstökum kjaraviðræðum yfir allan markaðinn væri ljóst að landið sigldi inn í skeið hærri vaxta og verðbólgu sem varla væri talið eftirsóknarvert. Í viðræðunum nú væri hins vegar verið að leggja drögin að nýju vinnumarkaðsmódeli og sagðist hann telja Íslendinga aldrei hafa verið eins nærri því að ná því markmiði eins og nú.

Á móti spurði Svandís hvort Bjarni teldi eðlilegt að halda þessum stéttum niðri sem vildu aðeins fá þær kjarabætur sem lög um gerðardóm í kjaradeilu BHM og hjúkrunarfræðinga við ríkið hafi leitt til og láta þær bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika. Spurði hún hvers vegna allar kjaraviðræður sem hann kæmi að enduðu í illdeilum.

Bjarni sagði Svandísi hafa lýst sögu deilna á vinnumarkaði í fyrirspurn sinni þar sem hún spurði hvers vegna allir fengju ekki þá hækkun sem sá sem fékk mest.

„Við Íslendingar eigum áratugalanga sögu þessa samtals. Að menn koma sundraðir að borðinu, menn knýja fram með verkföllum, með því að taka skurðstofur á Landspítalanum í gíslingu, með því að lama samgöngur til og frá landinu, með því að lama starfsemi mikilvægra stofnana,“ sagði Bjarni meðal annars.

Nefndi Bjarni sem dæmi að hann hafi verið einn þeirra sem útskrifaðist ekki eftir próf úr Menntaskólanum í Reykjavík vegna þess að verkfall hafði staðið svo lengi árið 1989 að þau þurfti að fella niður í fyrsta skipti í sögu skólans. Það sama hafi gerst á grunnskólaárum hans.

„Þetta er saga íslenska vinnumarkaðarins og við þurfum að komast út úr henni. Við gerum það ekki með því að spyrja: „Eru þetta ekki sanngjarnar kröfur? Við hljótum að ætla að fallast á þær“ vegna þess að þá kemur næsti hópur og svo næsti og svo næsti. Höfrungahlaupið heldur áfram,“ sagði fjármálaráðherra.

mbl.is