Tíu ár í alsjálfvirka bíla

Sjálfkeyrandi Audi.
Sjálfkeyrandi Audi. AFP

Varla eru meira en tíu ár í það að alsjálfvirkar bifreiðar verða komnar í almenna notkun. Þetta kom fram í máli Sverris Bollasonar hjá VSÓ Ráðgjöf á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar í sem fram fer í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík í dag. Þar fjallaði hann um rannsókn sem styrkt hefur verið af Vegagerðinni og snýr að meðal annars að því hvaða frammistöðu mætti væntan af slíkum bifreiðum við íslenskar aðstæður og hvað í manngerðum aðstæðum hér á landi þurfi að laga svo sjálfvirkar bifreiðar verði raunveruleiki á íslenskum vegum.

Fram kemur í rannsókninni að Nevada-ríki í Bandaríkjunum og önnur sólrík svæði þar í landi séu helsti vettvangur prófana á alsjálfvirkum bifreiðum. Sænski bifreiðaframleiðandinn Volvo stefni að því að aka sjálfkeyrandi bifreiðum í Gautaborg í Svíþjóð árið 2017 sem væntanlega eigi eftir að vísa veginn fram á við varðandi akstur við vetraraðstæður. Þá væri unnið að breytingum og viðbótum á Vínarsáttmálanum með það fyrir augum að gera ráð fyrir sjálfakandi bifreiðum. Einnig væri unnið að mótun staðla á vettvangi Evrópusambandsins í þessum efnun.

Slík alsjálfvirk ökutæki reiða sig mjög á ítarlegar landupplýsingar sem safnað hefur verið fyrirfram um það umhverfi sem ekið er um. Ekki einungis kort af vegum heldur einnig þrívíddarlíkön af byggingum og öðru í umhverfinu. Þau reiða sig að sama skapi á skynjara. Algengt er í dag að um sé að ræða sónar, radar og laserskynjara í bland við myndavélar sem greini umhverfið. Ekki er hins vegar samkvæmt rannsókninni vitað til þess að virkni þessara skynjara hafi verið sannreynd við aðstæður líkt og mikla rigningu, snjókomu eða snæviþakta vegi með viðunandi árangri.

Sverrir lagði áherslu á mikilvægi þess að íslensk yfirvöld fylgdust grannt með þróun mála í þessum efnum, meðal annars á vettvangi alþjóðastofnana, en vænta mætti mikilla breytinga á þessu sviði á næstu fimm árum. Þar sem tæknin sé enn í þróun lægi ekki fyrir hvaða breytingar eða viðbætur þyrftu að koma til hér á landi til þess að þessi tækni geti komið að notum á Íslandi. Fjölmörg lönd ynnu að rannsóknum á þessu sviði en hvert út af fyrir sig þar sem engin eining væri um það með hvaða hætti ætti að vinna að þessum málum til framtíðar.

Fréttir mbl.is:

Tækifæri frekar en kvöð

Kaupstaðurinn varð rústir einar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert