Hafa lokið rannsókn á fjárkúgun

Systurnar voru handteknar, grunaðar um að hafa sent bréf til …
Systurnar voru handteknar, grunaðar um að hafa sent bréf til forsætisráðherra. Styrmir Kári

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fjárkúgunarmáli er sneri að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra er lokið og verður málið sent til ríkissaksóknara fyrir lok vikunnar. Málið hefur verið til rannsóknar í rúma fimm mánuði.

Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru handteknar í lok maí, grunaðar um að hafa sent bréf í pósti til forsætisráðherra og krafist þess að hann greiddi þeim tiltekna fjárupphæð. Fjármunina átti að skilja eftir á ákveðnum stað sunnan Vallahverfisins í Hafnarfirði. Þar handtók lögregla konurnar.

Í samtali við mbl.is sagðist Malín hvorki hafa komið nálægt bréfinu né sendingu þess. Sagðist hún aðeins hafa blandast inn í málið vegna systur sinnar. Sagði hún aðkomu sína að málinu hafa í raun aðeins verið þá að hafa verið með systur sinni í bíl. Hafi hún að hluta vitað hvað til stæði en talið að enginn myndi taka málið alvarlega þar sem augljóst væri að veik manneskja ætti í hlut.

Nokkrum dögum síðar voru systurnar kærðar fyrir aðra fjárkúgun. Karlmaður kærði þær fyrir að hafa haft af sér 700 þúsund krónur. Systurnar sögðu þá peninga vera miskabætur vegna nauðgunar en maðurinn átti að hafa nauðgað Hlín. Eftir að maðurinn kærði fjárkúgunina kærði Hlín hann fyrir nauðgun.

Seinna málið verður nú tekið til rannsóknar en að sögn Aldísar Hilmarsdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gafst ekki rými til að rannsaka það fyrr en að rannsókn fyrra málsins lauk.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert