Vita ekki hvenær Orku Energy var boðið

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær fulltrúum Arctic Green Energy, áður Orku Energy, var boðið að taka þátt í dagskrá sendinefndar menntamálaráðherra til Kína, að því er kemur fram í svari ráðuneytis hans við fyrirspurn á Alþingi. Ekki var gert ráð fyrir þeim í þremur fyrstu drögunum að dagskrá heimsóknarinnar.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hefur legið undir gagnrýni vegna heimsóknarinnar. Bent hefur verið á hagsmunatengsl hans við Orku Energy sem hann vann meðal annars fyrir um tíma.

Í svari við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um vinnuferð ráðherra og föruneytis hans til Kína í mars 2014 kemur fram að ferðin hafi verið að frumkvæði kínverskra stjórnvalda. Íslenska sendiráðið í Beijing hafi skipulagt dagskrá ferðarinnar.

Ekki liggi fyrir nákvæmlega hvenær fulltrúum Arctic Green Energy og Marel var boðið til þátttöku í dagskrá sendinefndarinnar, en í drögum að dagskrá frá sendiráði Íslands, dags. 17. mars, þremur dögum fyrir brottför sendinefndar mennta- og menningarmálaráðuneytis frá Íslandi lá þátttaka þeirra fyrir, segir í svarinu.

Samkvæmt seinustu dagskrárdrögum sendiráðsins í Beijing átti Arctic Green Energy fimm fulltrúa í ferðinni, þar á meðal stjórnarformanninn Hauk Harðarson sem Illugi hefur sagt að hafi keypt af sér íbúð á tíma þegar hann var í fjárhagsörðugleikum.

Svarið við fyrirspurninni á vef Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert